Skoðun

Nýgreindir með HIV/alnæmi aldrei fleiri en nú á Íslandi

Sigurlaug Hauksdóttir skrifar

Fyrsti desember er hinn alþjóðlegi baráttudagur gegn HIV/alnæmi. Á þessu ári hafa þegar 20 manns greinst með HIV/alnæmi hérlendis − mesti fjöldi nýgreindra á einu ári frá upphafi mælinga árið 1983. Við þurfum að skilja hvað sé í gangi til að fyrirbyggja frekari smit.

Hverjir greinast?

Á undanförnum árum hefur um helmingur greindra verið fólk af erlendum uppruna. Aðfluttum frá löndum utan ESB/EES sem sækja um dvalarleyfi ber að fara í heilbrigðisskoðun við komuna til landsins. Þetta dregur úr hugsanlegri smithættu en þessi ráðstöfun eykur jafnframt lífslíkur og lífsgæði þeirra sem greinast jákvæð.

Fimm samkynhneigðir einstaklingar greindust jákvæðir það sem af er árinu saman­borið við að um 2-3 einstaklinga á ári síðan 1997. Tíðni greininga meðal samkynhneigðra í Evrópu hefur tvöfaldast síðastliðin fimm ár. Hér verðum við því að halda vöku okkar.

Að meðaltali hefur einn sprautufíkill greinst á ári hverju fram til ársins 2007. Þá varð breyting á og hafa 19 einstaklingar greinst síðan þá. Við skulum skoða þennan hóp sérstaklega.

HIV-jákvæðir sprautufíklar

Þeir sprautufíklar sem hafa greinst HIV-jákvæðir á síðustu árum eru jafnt af báðum kynjum og búa oftast á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Aðstæður þeirra hafa oft verið mjög erfiðar og hefur neyslan flækt líf þeirra og aðstæður enn meir. Þeir eru gjarnan heimilislausir og í litlum tengslum við fjölskyldur og ættingja. Oft eru þeir í líkam­lega lélegu ásigkomulagi og með lítið sjálfstraust. Veruleiki þeirra einkennist gjarnan af miklu harðræði og vanlíðan. Af þeim sem komu á Vog árið 2009 sprautuðu 214 sig reglulega í æð en Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, telur að þeir geti verið um 700 í dag.

Neyslan gerir fíklana gjarnan of andvaralausa til að verjast smiti með notkun óhreinna sprauta og sprautunála. Rannsókn árið 2008 á 69 sprautufíklum hérlendis sýndi að um 80% sprautufíklanna höfðu deilt sprautum og sprautunálum sín á milli. Stundum fjármagna einnig fíklar neyslu sína með því að selja sig, eykur það viðkvæmni þeirra fyrir HIV-smiti enn frekar. Hér myndast jafnframt smithætta út í sam­félagið vegna þeirra sem kaupa kynlífsþjónustu.

Sprautufíklar greinast gjarnan við innlögn á sjúkrahús eða meðferðarstofnanir, en á Landspítalanum er fagfólk sem vinnur saman að málefnum HIV-jákvæðra. Þegar einhver greinist með HIV er samkvæmt sóttvarnalögum reynt að rekja smit viðkomandi, en þegar um sprautufíkla hefur verið að ræða hefur oft reynst erfitt að ná til fólksins og fá það til að koma í skoðun. Það er því líklegt að fleiri séu smitaðir út í samfélaginu án þess að búið sé að greina þá.

Ábyrgð okkar

Brýnt er að við hlúum vel að félagslegum aðstæðum ungs fólks og aðgengi þess að menntun og störfum til að fyrirbyggja að þau leiðist út í vímuefnaneyslu.

Einnig er þarft að vímuefnaneytendur sem ekki sprauta sig þekki vel til HIV og hættunnar sem fylgir því að nota sprautur og sprautunálar. Upplýsa þarf jafnframt um meðferðarúrræði og veita nauðsynlega aðstoð á þeirri vegferð.

Sprautufíklar þurfa einnig ráðgjöf og stuðning, upplýsingar og aðstoð til að komast í viðeigandi meðferð. Hér hefur faglegt og jákvætt viðmót fagaðila og starfsfólks mikið að segja. Auðvelt aðgengi að hreinum sprautum og sprautunálum og staður til að skila þeim sem eru óhreinar þarf jafnframt að vera til staðar. Það getur dregið úr sýkingum og smithættu. Fræðsla um HIV, lifrarbólgur, sprautunotkun og meðferðarúrræði eru mikilvæg, sömuleiðis aðgengi að lyfja-viðhaldsmeðferð við ópíötum. Ef samtímis drægi úr mögulegum fordómum í samfélaginu, myndi það geta auðveldað fíklum skrefin inn í heilbrigðiskerfið, þiggja þá aðstoð sem þar er í boði og gefa þeim þannig kost á að auka heilbrigði sitt og vellíðan.

Við höfum verk að vinna.








Skoðun

Sjá meira


×