Erlent

Viðurkennir að hafa talað við Brown um starfsfólkið

Óli Tynes skrifar
Sir Gus O´Donnell.
Sir Gus O´Donnell.

Starfsmannastjóri breska forsætisráðuneytisins hefur viðurkennt að hann hafi talað við Gordon Brown um samskipti hans við starfsfólki ráðuneytisins.

Í nýrri bók sem kom þessari umræðu af stað er því haldið fram að Sir Gus O'Donnell hafi gripið í taumana þar sem starfsfólkið hafi verið hrætt og kúgað vegna reiðikasta forsætisráðherrans. Hann hafi öskrað á fólk, sparkað í húsgögn og jafvel slegið til starfsmanna.

Herskarar helvítis

Þessar sögur fengu svo byr undir báða vængi þegar Alistair Darling fjármálaráðherra sagði að herskörum helvítis hafi verið sigað á sig úr forsætisráðuneytinu eftir að hann spáði dýpri kreppu en talað hefði verið um.

Brown hefur neitað því að hafa fyrirskipað árásirnar á Darling.

Sir Gus hefur nú þurft að svara spurningum þingmanna um málið og viðurkenndi þá að hann hefði rætt við Brown.

Sýndu stuðning

Hann var þó mjög orðvar og neitaði því að hann hefði varað Brown við hegðan hans. Hann hefði talað við hann um hvernig hann fengi það besta út úr starfsfólki sínu.

-Ég sagði við hann, þú færð það besta út úr starfrsfólki þínu ef þú hrósar því fyrir vel unnin störf. Það er mjög mikilvægt að þú sýnir því stuðning.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×