Innlent

Lengingu skólaársins frestað

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga verður frestað að hluta til, segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Til dæmis verður lengingu skólaárs sem kveðið er á um í lögum slegið á frest. Í ræðu ráðherrans á nýafstöðnu menntaþingi kom einnig fram að hægt verður á innleiðingu þeirra hluta laganna sem snúa að gildistöku nýrrar aðalnámskrár í framhaldsskólum.

Tveir framhaldsskólar eru þegar farnir að vinna eftir nýjum lögum, sem fela meðal annars í sér nýtt einingakerfi til stúdentsprófs, Kvennaskólinn og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Þar fyrir utan eru margir skólar farnir að laga starfið að nýjum lögum. Sú vinna heldur áfram segir Katrín.

Ástæða frestunar á framkvæmd laganna er niðurskurður til menntamála, en að sögn Katrínar er verið að skoða í ráðuneytinu hvernig komið verður á móts við hann. Að sögn Katrínar munu línur í þeim efnum skýrast á næstunni.

Þess má geta að fulltrúafundur Félags framhaldsskólakennara sendi frá sér ályktun á dögunum þar sem mælst var til þess að innleiðing laganna yrði endurskoðuð vegna kostnaðar sem af þeim hlýst. Lögin voru samþykkt árið 2008 en áttu að koma til fullra framkvæmda haustið 2011. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×