Skoðun

Vonbrigði

Andrés Helgi Valgarðson skrifar
Ég á engin orð til að lýsa vonbrigðum mínum í dag.

Ég vona að Íslendingar muni þennan dag næst þegar þeir kvarta undan stjórnarfarinu á Íslandi. Næst þegar þeir kvarta undan því hvað kvótakerfið sé ósanngjarnt. Næst þegar þeir tala um hvað stjórnmálaflokkarnir hafa mikil völd og hvað þrískipting ríkisvaldsins sé léleg á Íslandi.

Ég vona að þjóðin minnist þessa dags næst þegar hún kvartar undan pólitískum stöðuveitingum og dómaraskipunum.

Næst þegar menn væla yfir því að eignarhald yfir auðlindum landsins sé á leið í einkaeigu, vona ég að þeir minnist þessa dags. Næst þegar menn tala um hvað persónukjör sé sniðugt og hvað það sé ósanngjarnt að hafa misjafnt atkvæðavægi milli landshluta, þá eiga þeir að muna eftir þessum degi.

Næst þegar eitthvað verður einkavætt í hendur á vinum stjórnmálaleiðtoga, þá eiga menn að muna þennan dag.

Í dag höfðum við tækifæri til að sýna vilja okkar sem þjóð. Til að ákveða á hvaða forsendum hér skyldi vera rekið ríki og hvernig því skyldi háttað. Hvað væri í lagi, og hvað væri ekki í lagi.

Okkar svar var eitt stór "Meh!" Okkar skilaboð eru skýr. Okkur er sama, við nennum ekki að pæla í þessu.

Vissulega var dregið úr þessu úr öllum áttum, tíminn var hafður of stuttur, frambjóðendur margir og kynning tæp. Umboð stjórnlagaþingsins var takmarkað af hálfu alþingis, en góð mæting hefði sagt ráðamönnum skýrt og greinilega að þetta væri eitthvað sem við ætluðum að taka alvarlega. Þjóð sem er alvara um það að bæta úr sínum málum hefði ekki látið svona hraðahindranir stoppa sig.

Í dag sögðum við skýrt og greinilega að okkur væri bara skítsama. Að þó við hefðum orðið reið fyrst um sinn eftir hrun, þá nenntum við þessu ekki lengur, reiðin gleymd og baráttuviljinn úr okkur.

Næst þegar það verða mótmæli á Austurvelli, á ég þá að nenna að mæta? Næst þegar eitthvað stórt og ósanngjarnt gerist, á ég þá að nenna að æsa mig?

Fyrst við gripum ekki þetta tækifæri þegar það gafst, þá getum við engum öðrum en sjálfum okkur um kennt næst þegar einhver gengur á lagið.

Fullt af fólki vill landi sínu og þjóð vel, og er tilbúið að leggja ógnarmikið á sig til að bæta leikreglurnar í landinu okkar.

En það er bara algjörlega ómögulegt að hjálpa þjóð sem nennir ekki að hjálpa sér sjálf.






Skoðun

Sjá meira


×