Innlent

Vörur fyrir 732 milljónir fluttar inn frá Ísrael

Íslendingar fluttu inn vörur frá Ísrael fyrir rúmar 732 milljónir króna á síðasta ári. Innflutningurinn hefur aukist síðustu ár. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands um utanríkisverslun.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur sagt koma til greina að beita Ísraela viðskiptaþvingunum vegna árásar þeirra á skipaflota á mánudag.

Langmest var flutt inn af grunnefnum til iðnaðar. Þau nema tæpum helmingi alls innflutnings frá Ísrael. Til þessara efna teljast kemísk efni, hreinlætisvörur, plastefni og áburður svo dæmi séu tekin.

Næst kemur innflutningur á ýmsum unnum vörur, svo sem húsgögnum, vísinda- og mælitækjum, ljósmyndavörum og fleiri iðnaðarvörum. Hann nemur tæpum sautján prósentum af heildarinnflutningnum.

Í þriðja sæti eru vélar og samgöngutæki, sem eru rúm fimmtán prósent heildarinnflutnings. Í þeim flokki er mest flutt inn af rafmagnstækjum og búnaði og vélbúnaði til atvinnurekstrar.

Fjórði stærsti flokkur innflutnings er matur, sem nam tæpum fjórtán prósentum. Þar er langmest um innflutning á grænmeti og ávöxtum, eða 13,3 af þessum 14 prósentunum. Minna er flutt inn af öðrum vöruflokkum.- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×