Viðskipti innlent

Innflutt hráefni til álvera var helmingur af útflutningstekjum

Álútflutningur skilaði í fyrra 167 milljörðum kr. í útflutningstekjur, sem jafngildir þriðjungi af heildartekjum af vöruútflutningi. Nettó gjaldeyrisinnflæði vegna álframleiðslu var þó til muna minna. Orsakir þess eru til að mynda hráefnisinnflutningur, en í fyrra var flutt inn hráefni til álframleiðslu fyrir 86 milljarða kr. sem samsvarar ríflega helmingi af útflutningstekjum af áli.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýlegt yfirlit iðnaðarráðuneytisins um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á næstu árum. Í yfirlitinu kemur m.a. fram að ráðuneytið telur þessar fjárfestingar gætu numið 265 milljörðum kr. næstu fjögur árin.

Í Morgunkorninu segir að hlutfall innflutningsgjalda af útflutningstekjum var raunar óvenju hátt í fyrra, en það hefur að jafnaði verið í kring um 40% undanfarin ár. Þá rennur hluti framlegðar álfyrirtækjanna til afborgana af erlendum lánum, og sama má segja um stóran hluta tekna orkufyrirtækja af raforkusölu til þeirra.

Í grófum dráttum má raunar segja að nettó gjaldeyrisinnstreymi af álframleiðslunni á hverjum tíma eigi að svara til launakostnaðar álfyrirtækja auk þjónustukaupa þeirra innanlands, að viðbættum innlendum kostnaði og hagnaði orkufyrirtækja vegna orkusölu til álframleiðslu.

Þar er þó um verulegar upphæðir að ræða, enda starfa 1.500 manns hjá álfyrirtækjunum þremur hér á landi og ef marka má mat iðnaðarráðuneytis eru afleidd störf vegna álframleiðslu allt að tvöfalt fleiri.

Gjaldeyrisinnstreymi vegna nýfjárfestinga í orkufrekum iðnaði gæti haft talsverð áhrif á innlendum gjaldeyrismarkaði, sér í lagi á meðan hann er jafn smár í sniðum og nú er vegna gjaldeyrishaftanna.

Líklegt er að hlutfall innlends kostnaðar í ofangreindum framkvæmdum verði töluvert hærra en raunin var þegar álverin í Reyðarfirði og Hvalfirði voru byggð upp. Þannig hefur Norðurál til að mynda lýst því yfir að fremur verði notast við innlent vinnuafl en erlendar starfsmannaleigur við byggingu Helguvíkurálversins, og gera má ráð fyrir að svipað gildi um Straumsvíkurstækkun sem og byggingu orkuveranna. Þar kemur bæði til gerbreytt atvinnuástand innanlands og eins það að eftir hrun krónu er íslenskt vinnuafl nú tiltölulega ódýrt í samanburði við erlent.

Áætlun iðnaðarráðuneytis gerir enda ráð fyrir 7.800 ársverkum vegna uppbyggingar orkufreks iðnaðar á næstu fjórum árum, að frátöldum afleiddum störfum sem gætu numið öðru eins. Það má því ljóst vera að nokkuð er í húfi fyrir íslenskan vinnumarkað og efnahagslíf að ekki verði óhóflegar tafir á þessari uppbyggingu næstu misseri, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×