Erlent

Kviksett fyrir að vilja ekki selja húsið sitt

Óli Tynes skrifar
Kínverskir verktakar nota ýmsar aðferðir til að sauma að þeim sem ekki vilja selja hús sín.
Kínverskir verktakar nota ýmsar aðferðir til að sauma að þeim sem ekki vilja selja hús sín.

Nokkrir menn hafa verið handteknir í Hubei héraði í Kína fyrir að berja sjötíu ára gamla konu og grafa hana svo lifandi.

Ástæðan var sú að Wang Cuyun neitaði að selja hús sitt sem verktakar vildu rífa til að reisa háhýsi.

Fréttaritari Sky fréttastofunnar í Peking, Peter Sharp segir að verktakar í Kína taki fólk engum vettlingatökum ef það er að þvælast fyrir þeim.

Mörg dæmi séu um að það sé beitt ofbeldi og kúgun allskonar til að koma því út úr húsum sínum.

Kveikti í sér

Í desember síðastliðnum hellti Xi Xinshu yfir sig bensíni og kveikti í sér þegar hópur manna réðst inn á heimili hans sem hann hafði neitað að selja.

Í júlí árið 2008 var Wang Zaiying barinn til bana við hús sitt sem verktakar voru þegar búnir að leggja í rúst. Hann neitaði hinsvegar að fara af lóðinni.

Grafin með jarðýtu

Í fyrstnefnda tilfellinu mættu verktakar með stórvirkar vinnuvélar til þess að rífa hús Wang Cuyun. Hún reyndi að streitast á móti og að sögn sjónarvottar barði einn verkamannanna hana með spýtu.

Henni var svo hent ofan í frárennslisskurð sem lá umhverfis húsið og jarðýta notuð til þess að grafa hana lifandi.

Lögreglan horfði á

Sonur konunnar og fleiri ættingjar reyndu að bjarga henni en þegar loks tókst að grafa hana upp var hún látin.

Sjónarvottar segja að lögreglumenn hafi orðið vitni að öllu saman en hvorki hreyft legg né lið til þess að bjarga konunni.

Þegar konan hafði verið grafin upp söfnuðust þúsundir manna saman við lík hennar til þess að mótmæla þessu framferði.

Ritskoðun á netinu

Það varð til þess að hreyfa við yfirvöldum. Á heimasíðu héraðsstjórnarinnar var skýrt frá láti hennar en sagt að það hafi verið slys. Rannsókn sé hafin á atburðinum og nokkrir menn verið handtekinir.

Frá því á föstudag hafa allar fréttir af málinu á netinu verið ritskoðaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×