Erlent

Flugmenn pólsku forsetavélarinnar undir miklum þrýstingi að lenda

Óli Tynes skrifar
Flak pólsku vélarinnar.
Flak pólsku vélarinnar. Mynd/AP

Flugmenn pólsku forsetavélarinnar sem fórst í Rússlandi í apríl hunsuðu ítrekaðar aðvaranir bæði frá flugumferðarstjórum og sjálfvirkum búnaði vélarinnar.

Flugmennirnir voru undir miklum þrýstingi að lenda til þess að Lech Kaczynski, eiginkona hans og fylgdarlið gætu verið viðstödd minningarathöfn um þúsundir pólska herforingja sem Jósef Stalín lét myrða í Katyn skógi á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Eitthundrað þrjátíu og tveir fórust í slysinu. Pólsk yfirvöld hafa nú birt upptökur úr flugrita vélarinnar.

Þar kemur í ljós að strax og forsetavélin nálgast flugvöllinn segja flugumferðarstjórar flugmönnunum að veðurskilyrði séu mjög slæm og það séu engar aðstæður til þess að lenda.

Flugstjórinn svarar: -Þakka þér fyrir. Ef það er mögulegt ætlum við að reyna að lenda en ef veðrið er vont tökum við hring og reynum aftur.

Nokkru síðar tilkynnir flugstjórinn að hann hafi hætt við lendingu. Hann flýgur svo hring til að gera annað aðflug.

Kaczynski forseti var þekktur fyrir að leggja mjög að flugmönnum sínum að lenda við erfiðar aðstæður.

Á upptökunni má heyra að skömmu fyrir slysið komnu tveir háttsettir embættismenn fram í stjórnklefann með stuttu millibili.

Þeir heyrast ekki gefa flugmönnunum nein fyrirmæli en einhver heyrist segja: -Hann verður brjálaður ef við lendum ekki.

Í síðasta aðfluginu heyrist svo í sjálfvirku aðvörunarkerfi vélarinnar sem segir til um of litla hæð. Aðvörunarkerfið er raddað. Það gefur frá sér sírenuvæl og segir svo: -Hækka flugið, hækka flugið, hækka flugið.

Þessi aðvörun er gefin þrettán sinnum en engu að síður er aðfluginu haldið áfram. Það síðasta sem heyrist er að vélin skellur á trjánum og flugmennirnir tvinna saman blótsyrði. Svo verður allt hljótt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×