Erlent

Hvíthærði „frelsarinn“ hafði börn og konur sem þræla

Líferni þessa hvíthærða manns hefur verið eitt helsta fréttaefnið í Ísrael undanfarnar vikur.nordicphotos/AFP
Líferni þessa hvíthærða manns hefur verið eitt helsta fréttaefnið í Ísrael undanfarnar vikur.nordicphotos/AFP

AP- Goel Ratzon býr einn í íbúð sinni í Tel Avív. Í næsta nágrenni er blokk þar sem á annan tug kvenna og nærri fjörutíu börn búa þröngt í nokkrum litlum íbúðum.

Ratzon hefur getað fylgst með öllum ferðum þeirra í gegnum myndavélakerfi og hefur refsað þeim ef ferðir þeirra eru ekki tilkynntar til hans.

Hann er sakaður um að hafa notað konurnar og börnin eins og þræla. Konurnar hafa þjónað honum eins og konungi, jafnvel matað hann með skeið, greitt á honum hárið og látið tattóvera bæði nafn hans og mynd af honum á líkama sinn. Þegar von var á egglosi sendu þær honum smáskilaboð í gegnum síma og komu í rúmið til hans ef hann fór fram á það.

Konurnar hafa skírt börning sín í höfuði á honum, en nafnið ‚Goel‘ þýðir frelsari á hebresku.

Ratzon var handtekinn 12. janúar og kom fyrir dómara í síðustu viku þar sem hann sagðist alsaklaus. Hann segir lögregluna ofsækja sig og áreita.

„Ég er enginn frelsari þeirra. Ég er bara góður við þær,“ sagði hann í sjónvarpsviðtali á síðasta ári. Hann er sagður búa yfir persónutöfrum og eiga auðvelt með að hafa áhrif á fólk. Hann gerði strangar kröfur til kvennanna, meðal annars um að þær klæddu sig siðsamlega og höguðu sér prúðmannlega í einu og öllu.

Sumar kvennanna hafa lýst að því er virðist einlægri aðdáun á honum, en nokkrar hafa snúið við honum baki og líkja veru sinni hjá honum við fangelsi.

„Nú er ég frjáls til að klæðast gallabuxum, tala við foreldra mína, hitta vini og kaupa mér kaffibolla án þess að biðja um leyfi Goels,“ segir Dvora Reichstein, sem kom til hans fyrir tæpum fimm árum þegar hún var 22 ára og barnshafandi eftir annan mann. Hún segist ekki hafa átt í önnur hús að venda.

Lögreglan segist hafa vitað af honum árum saman en ekkert getað aðhafst vegna þess að konurnar vildu ekkert illt um manninn segja. Þegar loks var látið til skarar skríða í síðasta mánuði gætti lögreglan sín á því að börnin væru í skóla af ótta við að hann gerði þeim eitthvað illt.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×