Skoðun

Tryggjum þjóðarhag

Mikilvægt er að hagsmunir þjóðarinnar verði tryggðir í komandi samningaviðræðum við ESB. Samninganefnd Íslands gegnir lykilhlutverki í því að tryggja góðan samning. Fordæmin lofa góðu. Íslendingar náðu nær öllum kröfum sínum fram í samningaviðræðum við ESB um fríverslunarsamning, EES og Schengen. Það er í raun stórmerkilegt hvað vel tókst til. Það tókst hins vegar ekki átakalaust. Þess vegna er mikilvægt að stjórnmálamenn, hagsmunasamtök og félagasamtök standi í megindráttum saman um að tryggja ásættanlega samningsniðurstöðu. Í því eru hagsmunir þjóðarinnar fólgnir.

Samninganefndin þarf að tryggja yfirráð Íslendinga yfir auðlindum hafsins. Þetta má til dæmis gera með sérstöku stjórnunarsvæði á miðunum í kringum landið innan sjávarútvegsstefnu sambandsins. Aðild að ESB hefur ekki áhrif á yfirráð þjóðarinnar yfir öðrum auðlindum. Einnig þarf að tryggja bændum hagstæðan landbúnaðarsamning rétt eins og Svíar og Finnar náðu fram í sínum aðildarviðræðum.

Mikilvægt er að ná góðum samningum um atvinnuuppbyggingu og bættar samgöngur innan uppbyggingarstefnu ESB. Fjölmörg tækifæri felast í aðild að stefnunni fyrir ferðaþjónustu, hinar dreifðu byggðir og byggðakjarna á landinu öllu. Við ættum einnig að standa saman að því að fá Seðlabanka Evrópu til að styðja við krónuna. Stuðningur ESB við peningastjórnun getur skipt sköpum um það hvernig til tekst við að bjarga heimilum og fyrirtækjum, stuðla að lægri vöxtum og sterkara gengi. Í kjölfarið er hægt að taka upp evru.

Það að grafa undan samninganefnd Ísland er að grafa undan hagsmunum þjóðarinnar. Því verður ekki trúað fyrr en á er tekið að stjórnmálaflokkar, hagsmunasamtök og félagasamtök sem láta sig Evrópumál varða ætli að beita sér gegn hagsmunum landsmanna í yfirstandandi viðræðum. Það er hagur allra landsmanna að vel takist til í samningaviðræðunum. Það er síðan þjóðarinnar að leggja mat á það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort nógu vel hafi tekist til.



Skoðun

Sjá meira


×