Erlent

Bandarísk stjórnvöld óttast um ferðamenn í Evrópu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bandarísk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að byssumenn úr röðum al-Qaida ráðist á bandaríska borgara í Evrópu. Mynd/ afp.
Bandarísk stjórnvöld hafa áhyggjur af því að byssumenn úr röðum al-Qaida ráðist á bandaríska borgara í Evrópu. Mynd/ afp.
Bandarísk stjórnvöld íhuga nú að brýna það fyrir bandarískum borgurum að fara varlega þegar þeir ferðast í Evrópu vegna gruns um að al-Qaeda geri hryðjuverkaárás. Þetta kemur fram á vef BBC.

Bandarísk og bresk stjórnvöld hafa staðfest að nýjar leiðsagnareglur verði hugsanlega gefnar út um það hvernig fólk eigi að hegða sér á meðan að það er á ferðalagi. Embættismaður í Bretlandi sagði að reglurnar yrðu ekki bundnar við einstakt ríki í Evrópu. Þá yrði heldur ekki gengið svo langt að mæla gegn því að bandarískir ferðamenn ferðuðust til Evrópu.

Vísbendingar eru um að al-Qaeda hafi fyrirætlanir um að senda byssumenn á fjölfarna staði í Evrópu og láta þá svo hefja skothríð á vestræna borgara. Gögn sem leyniþjónustumenn hafa undir höndum benda til þess að slíkar árásir hafi verið áætlaðar í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Leyniþjónustumenn telja að eftir að upplýsingar um slíkar áætlanir láku í fjölmiðla hafi al-Qaeda frestað framkvæmd þeirra en ekki hætt við þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×