Erlent

Konur eiga á hættu að veikjast af of gömlum snyrtivörum

Óli Tynes skrifar

Konur eiga á hættu að veikjast og skaddast í andliti vegna þess að þær geyma snyrtivörur langt framyfir þann tíma sem þær eru útrunnar.

Það er vegna þess að gamlar snyrtivörur eru sagðar vera gróðrarstía fyrir bakteríur sem geta valdið skinnangri og jafnvel sýkingum.

Það er best að taka strax fram að það var Debenhams verslanakeðjan sem gerði könnun á snyrtivörugeymslu meðal eittþúsund kvenna í Bretlandi. Debenhams hefur augljóslega hag af því að konur skipti sem örast um snyrtivörur.

Hvað sem því líður vissu fáar breskar konur um að samkvæmt reglum Evrópusambandsins eru framleiðendir skyldugir til þess að setja neðan á dósirnar merkingu um hversu lengi má nota þær eftir að búið er að opna þær.

Merkið er mynd af opinni dós og sá mánaðafjöldi sem óhætt er að geyma hana eftir opnun.

Mikill meirihluti kvennanna (68 prósent) sögðu að þær fengju sér aðeins nýja vöru eftir að sú gamla væri búin, hversu langan tíma sem það tæki.

Augnskuggar og kinnalitur virðast sérstaklega langlíf í veskjum kvenna. Meðal geymslutíminn reyndist vera 15 ÁR frekar en þeir 18-24 mánuðir sem mælt er með.

Konur virðast einnig eiga erfitt með að fleygja varalit. Hann er geymdur í heilan áratug en mælt er með 12-24 mánuðum.

Þá getur einnig verið varasamt að deila snyrtivörum með fjölskyldu og vinum. Förðunarsvampar eru sérstaklega bakteríusæknir ef þeir eru ekki þvegnir reglulega.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×