Erlent

Stuðningur ESB við krónuna?

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar frá 9. júlí 2009 um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn, sem þá lá fyrir Alþingi og var síðan samþykkt, segir að „komi til aðildarviðræðna beri að leggja kapp á að viðræður um gjaldmiðilsmál verði forgangsverkefni í viðræðuferlinu og því eigi að leita eftir samkomulagi við ESB og ECB um stuðning við krónuna."

Einnig segir að meirihlutinn taki undir þau sjónarmið, sem fram hafi komið í báðum þeim þingsályktunartillögum sem lagðar voru fram á þingi um aðildarumsókn, að „Ísland leiti á fyrstu stigum viðræðna eftir sérstöku samkomulagi við ESB, og eftir atvikum evrópska seðlabankann, sem verið gæti stuðningur á næstu misserum við íslensku krónuna meðan á aðlögunarferli Íslands stæði."

Að baki þessu býr fyrst og fremst sú hugsun, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, að það hljóti að vera Evrópusambandinu í hag ekki síður en Íslandi, að Íslendingar fái frá Evrópusambandinu aðstoð við að styrkja gjaldmiðilinn til að auðvelda aðlögun að myntbandalagi Evrópusambandsins og upptöku evru.

Rökstuðningurinn er þessi: Við erum nú þegar á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins og höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu. Íslenska krónan er örlítil mynt bundin í gjaldeyrishöft sem brjóta í bága við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Aðild að Evrópusambandinu fylgir að Ísland þarf að taka upp evru um leið og íslenskt efnahagslíf telst tilbúið til þess. Því betri stuðning sem Ísland fær við krónuna því fyrr má reikna með að landið verði fært um að skipta út krónunni fyrir evru.

Hvort samningar takast um slíkan stuðning er óvíst, en á þessu verður þreifað um leið og viðræður hefjast fyrir alvöru, líklega strax í haust eða næsta vetur, enda hefur samninganefnd Íslands fyrrgreint meirihlutaálit utanríkismálanefndar að leiðarljósi í öllum störfum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×