Skoðun

Meirihluti fyrir aðildarviðræðum

Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið sem hófust formlega í þessari viku er stór og merkur áfangi. Upp á síðkastið hafa heyrst háværar raddir í samfélaginu sem segja að það beri að draga umsóknina til baka sökum þess að ekki sé lengur meirihluti á Alþingi fyrir aðildarviðræðum.

Umsókn Íslands að Evrópusambandinu var eitt af aðalkosningamálunum fyrir síðustu kosningar. Þrír stjórnmálaflokkar, Samfylking, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin, voru með það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB og að aðildarsamningurinn yrði í kjölfarið lagður í hendur þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessir þrír flokkar fengu góða kosningu eða samtals 33 þingmenn og höfðu styrk til að mynda meirihlutastjórn. Skilaboð kjósenda eftir síðustu kosningar voru skýr, meirihluti kjósenda vildi sækja um aðild að ESB og fá úr því skorðið hvað stæði til boða. Forystumenn Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar verða að skýra stefnubreytingu sína í afstöðunni til ESB fyrir kjósendum sínum.

Í stjórnarmyndunarviðræðum Samfylkingarinnar og VG náðist sátt milli flokkanna um að leggja inn umsókn að ESB. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamninginn er sáttaleið og eina færa leiðin til að leiða málið til lykta á farsælan hátt. Það er einkennilegt að ekki sé hægt að ná þverpólitískri sátt um að ljúka samningaferlinu og ná sem bestum samningi fyrir Ísland sem verður lagður í hendur þjóðarinnar. Bæði þeir sem eru hlynntir og andvígir aðild að ESB ættu að fagna því að þjóðin fái loksins tækifæri til að kynna sér málin og taka afstöðu. Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mikilvæga mál. Það má alveg eins færa rök fyrir því að það séu svik við íslensku þjóðina ef hún fær ekki að hafa lokaorðið í þessu máli

Það er algjörlega fáheyrt að ríki dragi umsókn sína til baka eftir rúmlega árs undirbúning og slíkt myndi hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir efnahag og trúverðugleika landsins út á við. Umsókn að ESB er staðreynd og samningsferlið er hafið - fait accompli. Í framhaldinu þarf að huga að næstu skrefum sem er að ná eins góðum samningi og mögulegt er. Að lokum er það þjóðin sem mun hafa síðasta orðið.




Skoðun

Sjá meira


×