Innlent

Þörf á rúmlega 300 nýjum leikskólaplássum á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gert er ráð fyrir að jafnvægi verði milil framboðs og eftirspurnar á leikskólaplássi á næsta ári.
Gert er ráð fyrir að jafnvægi verði milil framboðs og eftirspurnar á leikskólaplássi á næsta ári.
Þörf er á að fjölga leikskólaplássum um 309 seinni hluta næsta árs vegna barna sem verða tveggja ára á því ári. Þetta kemur fram í svari sviðsstjóra Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hingað til hefur Reykjavíkurborg reynt að tryggja öllum börnum sem náð hafa tveggja ára aldri leikskólapláss og er gert ráð fyrir að svo verði áfram.

Samkvæmt svarinu stendur til að fjölga leikskólaplássunum með því að nýta færanleg hús, fjölga börnum í leikskólum þar sem það er hægt og nýta lausar stofur og laus rými grunnskóla. Gert er ráð fyrir að viðbótarplássum verði fjölgað um 70 á tímabilinu janúar til febrúar 2011 þegar nýr leikskóli opni í Norðlingaholti og svo muni þeim fjölga um 239 á tímabilinu frá september til desember á næsta ári.

Í svari Reykjavíkurborgar kemur fram að gert sé ráð fyrir að fjölgun plássa hjá dagforeldrum nemi 380 á ári. Gert sé ráð fyrir það mikilli fjölgun plássa hjá leikskólum og dagforeldrum að framboð svari að mestu leyti eftirspurn.

Í svarinu kemur jafnframt fram að þjónustutrygging, sem er úrræði sem er notað til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og dagforeldra eða leikskóla, er í endurskoðun vegna fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×