Skoðun

Feilnóta í umræðu

Minn ágæti samstarfsmaður, Ögmundur Jónasson, ritar grein í Morgunblaðið í gær sem vakið hefur hörð viðbrögð og ónotatilfinningu hjá mörgum enda var það trúlega markmiðið.

Greinin er ekki málefnaleg og kallar því ekki á málefnaleg viðbrögð. Hún lýsir hins vegar undarlegu viðhorfi sem hættulegt er að sá í viðkvæman svörð. Samlíkingar og orðaval það sem Ögmundur styðst við er ekki sú orðræða sem við þörfnumst nú um stundir þegar við stjórnmálamenn og landsmenn allir leggjast á árarnar við að byggja upp samfélagið eftir það skipbrot sem við höfum orðið fyrir.

Sú staðreynd blasir við að Alþingi Íslendinga samþykkti að óska eftir því við Evrópusambandið að hafnar yrðu viðræður um aðild Íslands að sambandinu. Sú beiðni var samþykkt. Við göngum keik til þeirra viðræðna enda höfum við ýmislegt fram að færa, eins og Ögmundur bendir réttilega á. Hvað Evrópusambandið býður á móti á eftir að koma í ljós. Margt af því þekkjum við nú þegar en úr öðru þarf að vinna eftir því viðræðum vindur fram. Á meðan höldum við Íslendingar áfram að sinna okkar viðfangsefnum og þiggjum þá aðstoð sem okkur býðst og okkur hentar í hverju tilviki.

Ég vona að sá tónn sem Ögmundur slær í grein sinni sé feilnóta sem ekki verður aftur slegin. Málefnaleg umræða, meðan á aðildarviðræðunum stendur, er bæði andstæðingum og fylgjendum aðildar til framdráttar. Þá getum við öll staðið upprétt þegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggja fyrir.



Skoðun

Sjá meira


×