Lífið

Glasser hitar upp á Evróputúr Jónsa

Cameron Mesirow er forsprakki bandarísku hljómsveitarinnar Glasser sem hitar upp fyrir Jónsa.
Cameron Mesirow er forsprakki bandarísku hljómsveitarinnar Glasser sem hitar upp fyrir Jónsa.

Bandaríska hljómsveitin Glasser með söngkonuna Cameron Mesi-row í fararbroddi hitar upp fyrir Jónsa í Sigur Rós á tónleikaferð hans um Evrópu sem hófst fyrir skömmu.

Mesirow fæddist í Boston og faðir hennar er meðlimur í hljómsveitinni Blue Man Group sem er starfrækt í Berlín. Hún er mikill aðdáandi Joni Mitchell og kemur stundum fram með grímu á tónleikum. Glasser spilar rólega og draumkennda tónlist og mun hita upp fyrir Jónsa og hljómsveit hans fram til níunda júní.

Tónleikaferð Jónsa um Evrópu stendur yfir þar til í lok nóvember, með stoppi í Ástralíu og Japan í ágúst. Að loknum tónleikunum í Japan spilar hann á Norðurlöndunum, meðal annars á staðnum Vega í Kaupmannahöfn 17. ágúst. Hljómsveit Jónsa er annars skipuð Alex Somers kærasta hans, Úlfi Hanssyni, Þorvaldi Þór Þorvaldssyni og Ólafi Birni Ólafssyni.

Þeim félögum var vel tekið á nýafstaðinni tónleikaferð þeirra um Kanada og Bandaríkin. Samkvæmt heimasíðu Jónsa voru tónleikagestir sammála um að hann hefði staðið fyllilega fyrir sínu þrátt fyrir að félagar hans í Sigur Rós hafi verið fjarri góðu gamni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.