Erlent

Rússar telja sjóræningja réttdræpa -skildu tíu eftir á rúmsjó

Óli Tynes skrifar
Vladimir Putin er harður nagli.
Vladimir Putin er harður nagli.

Tíu sómalskir sjóræningjar sem rússneskt herskip sleppti 600 kílómetra frá landi fórust allir að sögn norsku vefsíðunnar vg.no.

Forsagan var sú að ellefu sjóræningjar réðust um borð í rússneskt olíuskip undan ströndum Jemens. Skipverjarnir 23 lokuðu sig inni í öryggisherbergi þar sem sjóræningjarnir komust ekki inn.

Þar sem sjóræningjarnir höfðu enga gísla til að beita fyrir sig réðust rússneskir sjóliðar um borð í skipið. Þeir drápu einn sjóræningjann og tóku hina höndum.

Þeir voru svo settir um borð í lítinn bát án nokkurra leiðsögutækja og skildir eftir á hafinu 600 kílómetra frá landi.

BBC fréttastofan segir að rússneski ofurstinn Alexei Kuznetsov hafi verið spurður um af hverju þeir hefðu skilið mennina eftir á opnu hafi.

Hann svaraði; -Af hverju ættum við að vera að fóðra eitthvað sjóræningjagengi?

Engin hætta er á að ofurstinn fái skömm í hattinn fyrir þetta svar. Vladimir Putin forseti Rússlands tók málið upp á blaðamannafundi í síðustu viku.

Hann sagði að nauðsynlegt væri að styrkja alþjóðalög til þess að hægt væri að draga sjóræningja fyrir dóm hvar sem er í heiminum.

Svo sagði Putin; -En þangað til það verður gert verðum við að meðhöndla sjóræningja eins og forfeður okkar gerðu í gamla daga. Þið skiljið sjálfsagt hvað ég er að segja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×