Erlent

Sprengjumaðurinn múslimi frá Tsjetsníu

Doukaiev er nokkuð krambúleraður í framan eftir sprengju sína.
Doukaiev er nokkuð krambúleraður í framan eftir sprengju sína. Mynd/Danska lögreglan

Danska lögreglan er þess nú fullviss að sprengjumaðurinn sem hún hefur í haldi sé 24 ára gamall Tsjetseni að nafni Lors Doukaiev.

Doukaiev hefur búið í Belgíu í fimm ár. Danska blaðið Expressen segir að hann sé hnefaleikari sem hafi unnið 12 af 20 bardögum. Það er líklega nokkuð vel af sér vikið fyrir einfættan mann, en Doukaiev er með gervifót.

Hnefaleikaþjálfari í Belgíu segir við danska blaðið BT að hann sé múslimi. Eins og yfirgnæfandi meirihluti Tsjetsena.

Danska lögreglan segir að þótt hún sé viss um uppruna Doukaievs viti hún enn ekkert um ástæðuna fyrir því að hann kom til Danmerkur að því er virðist til að gera sprengjuárás.

Ekki sé vitað hvort hann hafi verið einn að verki eða hvort hann sé útsendari einhverra samtaka. Ekki er heldur vitað hvert skotmarkið átti að vera.

Belgiska lögreglan leitaði í nótt í íbúð Doukaievs en sú danska vill ekkert upplýsa um hvað hafi fundist við þá leit.

Á myndum sem birtar hafa verið af manninum má sjá að hann hefur skaddast nokkuð á andliti þegar hann var að sýsla við sprengju sína á klósettinu í hótelherbergi sínu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×