Erlent

Kínverjar herða róðurinn gegn Japan

Óli Tynes skrifar
Frá Tokyo.
Frá Tokyo.

Kínverjar urðu ævareiðir þegar tvö japönsk strandgæsluskip færðu kínverskan fiskibát til hafnar fyrr í þessum mánuði.

Áhöfn bátsins var sleppt fljótlega en skipstjóranum var haldið eftir. Japanar sökuðu hann um að hafa siglt utan í strandgæsluskipin af ásettu ráði.

Kínverjar hafa þegar sett afmarkað viðskiptabann á Japan. Þeir hafa meðal annars hætt að selja þeim vissa málma sem Japanar nota til þess að framleiða allt frá tölvum til rafhlaða.

Jafnframt hafa þeir hótað öllu illu ef skipstjórinn yrði ekki látinn laus. Japanar tilkynntu í dag að þeir myndu sleppa skipstjóranum en ekki er víst að Kínverjar láti sér það nægja.

Þeir hafa nú upplýst að þeir hafi handtekið fjóra Japana sem þeir saka um njósnir. Kínverska fréttastofan segir að þeir hafi farið inn á svæði sem tilheyri hernum og tekið þar myndir í óleyfi.

Japanarnir fjórir vinna fyrir stórfyrirtækið Fujita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×