Innlent

Vífilfell: Engin hættuleg litarefni í Powerade

Vegna frétta um litarefni í Powerade íþróttadrykkjum hefur Vífilfell, dreifingaraðili drykkjanna, sent frá yfirlýsingu þar sem því er vísað á bug að í bláum Powerade drykkjum séu asó-litarefni. Þá er því einnig hafnað að litarefnið sem er í bláum Powerade sé bannað í fjölda Evrópulanda, þvert á móti sé drykkurinn seldur í öllum löndum Evrópu.

Yfirlýsing Vífilfells fer hér á eftir í heild sinni:

„Fjallað hefur verið um litarefni í drykkjum undanfarna daga í fjölmiðlum og hefur vörumerkið Powerade blandast í umræðuna þar sem gætt hefur misskilnings og misvísandi upplýsinga. Af þeim sökum óskar Vífilfell eftir að koma á framfæri eftirfarandi leiðréttingum.

Gefið hefur verið í skyn að í bláum Powerade, Mountain Blast, séu asó-litarefni sem í umfjöllun hafa verið tengd við rannsóknir á ofvirkni. Þetta er ekki rétt. Powerade Mountain Blast inniheldur litarefni sem eru samþykkt og viðurkennd af innlendum og erlendum eftirlitsstofnunum, s.s. Matvælastofunun Evrópu (EFSA) og Matvælastofnun á Íslandi. Engin asó-litarefni eru heldur að finna í gulum Powerade, Citrus Charge.

Sagt hefur verið frá því að litarefni í bláum Powerade sé bannað í fjölda Evrópulanda, þar á meðal Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þetta er ekki heldur rétt. Hið rétta er að í engu Evrópsku landi er í reglugerðum bannað að nota litinn í drykkjarvörum eða annarri matvöru. Blár Powerade, með sama innihaldi og er selt hér á landi, fæst í öllum löndum Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Þess ber að geta að lokum að asó-litarefni er að finna í rauðum Powerade og verður vera hans á markaði endurskoðuð fljótlega því Vífilfell skiptir reglulega út bragðtegundum. Asó-litarefni eru fullkomlega lögleg litarefni. Þau eru viðurkennd af EFSA (Evrópsku matvælastofuninni) og Matvælastofnun á Íslandi og eru víða notuð í matvælum. Þróunin hefur þó orðið sú á heimsvísu að framleiðendur hafa dregið úr notkun þeirra að kröfu neytenda vegna neikvæðrar umfjöllunar í fjölmiðlum og í kjölfar aukinnar þekkingar og rannsókna.

The Coca-Cola Company og Vífilfell hafa unnið markvisst að því að útiloka ónáttúruleg efni úr öllum drykkjarvörum eftir því sem tækninni fleygir fram, til að koma til móts við þarfir neytenda, byggt á nýjustu þekkingu um næringu og heilnæmi."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×