Handbolti

Sverre: Maður verður að teljast heppinn

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sverre Jakobsson í baráttunni í leik með Grossvallstadt.
Sverre Jakobsson í baráttunni í leik með Grossvallstadt. Nordic photos/Getty

Landsliðsmaðurinn Sverre Jakobsson hjá Grosswallstadt er búinn að jafna sig eftir að hafa meiðst illa á vinstra auga fyrir tveimur vikum síðan. Betur fór en á horfðist þegar Sverre fékk þrumuskot beint í augað með þeim afleiðingum að linsa sem hann var með brottnaði þannig að blæddi mikið inn á augað.

„Ég fékk grænt ljós á að byrja að æfa aftur á mánudaginn en átti bara að taka því rólega til að byrja með en ég kann það ekkert. Ég átti bara að vera að keyra þetta á svona 60-70 prósent hraða en var hins vegar bara á hundrað prósent keyrslu og rúmlega það.

Ég fór svo í [gær] morgun í skoðun og það var allt í fínu lagi þannig að ég má spila með í næsta leik en verð samt áfram undir einhverju smá eftirliti næstu vikurnar. Það er fínt að komast aftur í gírinn og maður verður að teljast heppinn miðað við hvernig þetta hefði getað farið," segir Sverre.

Sverre viðurkennir að hann eigi enn eftir að taka í hnakkadrambið á liðsfélaga sínum sem dúndraði boltanum í augað á honum með áðurgreindum afleiðingum.

„Ég er búinn að segja þjálfaranum að það komi að því að ég eigi eftir að keyra þennan liðsfélaga minn í gólfið hvort sem það verður eftir tvo daga, tvær vikur eða tvo mánuði. Það mun pottþétt gerast og þá þýðir ekkert að benda á mig. Það þarf að vana hann við en ég held að þjálfarinn minn hafi nú reyndar ekki tekið mig alvarlega," segir Sverre hlæjandi en Grosswallstadt mætir Melsungen í þýska handboltanum á laugardag.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×