Lífið

Áhugaljósmyndari sigraði í virtri ljósmyndasamkeppni

Jóhannes Frank Jóhannesson sigraði í ljósmyndakeppni á vegum eins virtasta ljósmyndatímarits heims.
Jóhannes Frank Jóhannesson sigraði í ljósmyndakeppni á vegum eins virtasta ljósmyndatímarits heims. Fréttablaðið/GVA

Jóhannes Frank Jóhannesson áhugaljósmyndari hlaut svonefnd Excellent Award í ljósmyndakeppni á vegum tímaritsins Black And White Magazine, en blaðið er eitt virtasta ljósmyndatímarit í heimi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Jóhannes Frank tekur þátt í ljósmyndakeppni á vegum Black and White Magazine og segir hann þetta hafa verið hálfgerða skyndihugmynd.

„Ég átti orðið mikið magn af myndum og ákvað þess vegna að prófa að senda inn tvær möppur í sitthvorn keppnisflokkinn. Þetta er svo ný­tilkomið að ég veit enn ekki hvaða myndir sigruðu eða hvað þetta mun hafa í för með sér," útskýrir Jóhannes Frank, sem starfar sem grafískur teiknari dagsdaglega.

Hann hefur sinnt ljósmyndun frá árinu 2005 og hefur hann sérstaklega gaman af því að taka svart-hvítar ljósmyndir. Aðspurður segist Jóhannes Frank ekki viss hvaða áhrif sigurinn geti haft á ljósmyndaferil hans. „Þetta getur þýtt allt eða ekkert, það er erfitt að segja til um hvað komi út úr þessu. Hjá sumum getur ferillinn farið á flug en öðrum gerist lítið. Mér vitanlega eru engin verðlaun í boði, sigurinn sjálfur þykir nógu góð verðlaun, enda fær maður myndir sínar birtar í einu virtasta ljósmyndatímariti heims," segir Jóhannes Frank að lokum.

Áhugasömum er bent á heimasíðu Jóhannesar Franks, johannesfrank.com. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.