Skoðun

Ekki gera mér upp skoðanir

Þorsteinn Pálsson, fyrrum ritstjóri, sendiherra og forsætisráðherra, með meiru, ritar reglulega pistla í helgarblað Fréttablaðsins undir heitinu Af Kögunarhóli. Pistlar þessir eru oftar en ekki áhugaverð lesning, hvort sem menn eru sammála eða ósammála Þorsteini í skoðunum, því Þorsteinn er bæði reyndur og fjölvís maður, auk þess að hann á auðvelt með að tjá skoðanir sínar í riti á einfaldan og skýrarn máta. Síðustu tvo laugardaga hefur Þorsteini hins vegar fipast flugið, en í pistlum sínum hefur hann tekið upp á að gera hópi manna upp skoðanir og leggja síðan út frá þeim.

Laugardaginn 17. júlí sagði Þorsteinn í umfjöllun um kaup Magma Energy á HS Orku: „Heimssýnarvængur Sjálfstæðisflokksins hefur tekið einarða afstöðu með vinstri armi VG." Vildi hann með þessu meina að þeir Sjálfstæðismenn sem taka þátt í starfi Heimssýnar væru mótfallnir fjárfestingum erlendra fyrirtækja í orkuframleiðslu hér á landi.

Laugardaginn 24. júlí heldur Þorsteinn því síðan fram að talsmenn Heimssýnar keppist við að sannfæra almenning um að sjávarútvegur og landbúnaður geti lagt til þann hagvöxt sem þörf er á til að fjölga störfum um tuttugu þúsund og bæta lífskjörin.

Þó svo að ég sé virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins, auk þess að eiga sæti í stjórn Heimssýnar, þá kannast ég ekki við að það sé einhver Heimssýnarvængur innan Sjálfstæðisflokksins; ekki veit ég hverjir aðrir ættu að vera í honum ef ekki þau okkar sem eru bæði í stjórn Heimssýnar og flokksbundin og virk í starfi Sjálfstæðisflokksins. Það má vel vera að þau viðhorf sem Þorsteinn lýsir eigi við um einhverja Sjálfstæðismenn sem starfa innan Heimssýnar, en því fer fjarri að svo eigi við um alla í þeim hópi.

Heimsýn eru þverpólitísk samtök fólks sem telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins. Í samtökunum starfar fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Þó svo að félagsmenn séu sammála í þessu stóra máli, þá má öllum vera ljóst að þar sem samtökin eru þverpólitísk hafa þau ekki öðru pólitísku hlutverki að gegna.

Ég get með ánægju upplýst Þorstein um skoðanir mínar á fyrrgreindum málefnum: Fjárfestingar erlendra aðila í orkuframleiðslu

•Það er mikilvægt að nýta orkulindir landsins til þess að efla hag landsmanna - ónýttar orkulindir skapa engin verðmæt störf, skila engum virðisauka, gagnast engum. Uppbygging íslensks orkuiðnaðar mun efla aðra atvinnustarfsemi í landinu.

•Það er skynsamlegt fyrir Íslendinga að dreifa fjárfestingum sínum á margar ólíkar atvinnugreinar, í ólíkum löndum og með mismikilli arðsemiskröfu og áhættustigi. Það hefur aldrei þótt viturt að vera með öll egg í einni körfu. Íslendingar hafa nú þegar bundið mikið fjármagn í innlendum orkufyrirtækjum og því æskilegt að fá aðra að þessum fjárfestingum. Það fjármagn sem landsmenn eiga getur þá nýst til annarrar atvinnuuppbyggingar og áhættudreifingar.

•Það er mun æskilegra að útlendir fjárfestar eigi hlutafé í íslenskum orkufyrirtækjum, fremur en að orkufyrirtækin séu ofurskuldsett á ábyrgð skattborgaranna, en þannig er fjármögnun tveggja stærstu orkufyrirtækja landsmanna háttað (ríkisábyrgð og ábyrgð Reykjavíkurborgar).

•Í stað þess að takmarka heimildir útlendinga til fjárfestinga í orkuframleiðslu við aðila innan EES væri mun eðlilegra að fella slík höft úr gildi og heimila hverjum sem er, óháð þjóðerni, að fjárfesta í orkuframleiðslu hérlendis, að því gefnu að viðkomandi fari að lögum og reglum, greiði eðlilegt gjald fyrir afnot af auðlindum og skatta af hagnaði sem myndast hérlendis.

Framtíðar hagvöxtur

•Án þess að gera lítið úr mikilvægi sjávarútvegs og landbúnaðar, þá er fjarri lagi að þessar atvinnugreinar geti einar lagt til þann hagvöxt sem þörf er á til að bæta lífskjör landsmanna. Það má án efa halda áfram hagræðingu í þessum greinum, þó svo að núverandi ríkisstjórn virðist gera allt sem hún getur til að draga úr arðsemi sjávarútvegs og þar með hagvexti, en það eru náttúruleg takmörk fyrir því hverju þessar atvinnugreinar geta skilað okkur í bættum efnahag.

•Við þurfum að nýta styrkleika okkar til uppbyggingar annarra framleiðslu- og þjónustugeira:

oHlutfallslega hátt hlutfall af ungu vel menntuðu fólki, sem hefur sótt menntun til fjölda ólíkra landa;

oSveigjanlegur vinnumarkaður;

oNáttúruauðlindir, þ.m.t. orkuauðlindir.

•Við þurfum að bæta úr því sem heldur aftur af okkur í dag:

oBúa fyrirtækjum stöðugt lagalegt og skattalegt umhverfi, með eins fáum og gagnsæjum reglum og unnt er að komast af með - lágir skattar á fyrirtæki og einfalt gagnsætt regluverk eflir fjárfestingar;

oDraga úr pólitískri og réttarfarsóvissu - fjárfestar vilja ekki binda fé í landi þar sem jafn mikil pólitísk og réttarfarsóvissa er til staðar eins og uppþotið vegna Magma Energy ber vott um;

oEfla traust innan samfélagsins - fátt hefur eins jákvæð áhrif á hagvöxt og almennt traust manna á milli;

oEfla viðskipti við önnur lönd, ekki aðeins Evrópu, heldur einnig við hin 95% mannkyns sem búa utan ESB og njóta almennt mun meiri hagvaxtar en ESB svæðið;

oAfnema gjaldeyrishöftin - jafnvel þó svo að slíkt geti kostað einhvern sársauka til að byrja með þá er það ekkert á við þá efnahagsfórn sem allir landsmenn munu annars þurfa að færa vegna haftanna.

Að ofan er skoðun Heimssýnarmanns í Sjálfstæðisflokknum til þeirra mála sem Þorsteinn Pálsson hefur skoðað af Kögunarhóli síðustu tvær helgar. Ég geri fastlega ráð fyrir að margir félagar mínir í Heimssýn séu mér ekki sammála í þessum málum og það kann að vera að einhverjir félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum, innan eða utan Heimssýnar, séu mér einnig ósammála.

Það hefur almennt verið talinn aumur málflutningur að gera fólki upp skoðanir til þess að vega aðrar skoðanir upp. Ég virði afstöðu Þorsteins Pálssonar til mögulegrar aðildar Íslands að ESB og ég ætlast til hins sama af honum í minn garð. Vil ég því hér með óska eftir því að Þorsteinn hætti að gera mér og fleirum upp skoðanir í sínum annars ágætu pistlum.




Skoðun

Sjá meira


×