Handbolti

Tékkar gerðu sér og Frökkum greiða en Ungverjar sitja eftir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Jicha var frábær í kvöld.
Filip Jicha var frábær í kvöld. Mynd/AFP

Tékkar tryggðu sér sæti í milliriðli með sjö marka sigri á Ungverjum, 33-26, í lokaleik liðanna í D-riðli Evrópumótsins í handbolta í Austurríki í kvöld.

Tékkar gerðu ekki bara sér greiða með þessum sigri því Frakkar fögnuðu einnig þessum úrslitum. Frakkar fara nú með þrjú stig inn í milliriðilinn í staðinn fyrir að þeir hefðu farið með tvö stig ef að Ungverjar hefðu farið áfram.

Ungverjar gerðu jafntefli við Frakka í fyrsta leik en sátu eftir eftir stór töp á móti Spánverjum og Tékkum.

Filip Jicha átti stórleik hjá Tékkum og skoraði 14 mörk úr aðeins 18 skotum og Jan Filip var með 11 mörk. Martin Galia varði 21 skot í tékkneska markinu. Gabor Csaszar skoraði 6 mörk fyrir Ungverja.

Tékkar voru komnir mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleiknum, 13-8, en þá skoruðu Ungverjar fimm mörk í röð á tæpum fjórum mínútum og jöfnuðu leikinn, 13-13. Tékkar skoruðu síðan lokamark hálfleiksins og voru 14-13 yfir í leikhléi og tóku síðan aftur öll völd í seinni hálfleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×