Erlent

Vélmenni stöðvi gríðarlegan olíuleka

Olíubrákin nær nú þegar yfir 1.550 ferkílómetra. Nordicphotos/AFP
Olíubrákin nær nú þegar yfir 1.550 ferkílómetra. Nordicphotos/AFP

Talið er að um 160 þúsund lítrar af olíu leki í hafið á degi hverjum frá olíuborpallinum sem sökk til botns á Mexíkóflóa í síðustu viku. Til að reyna að draga úr umhverfisspjöllum vegna olíunnar hafa vélmenni verið send á dýpið og eiga að gangsetja búnað sem gæti stöðvað lekann. Borpallurinn var í eigu breska olíufélagsins, BP, og lögðu talsmenn hans áherslu á að aðgerðin væri svo flókin að ekki væri víst að hún tækist. Leifarnar af pallinum eru á rúmlega 1.500 metra dýpi.

Óttast er að nái olían til bandarískrar strandar verði meiri háttar umhverfisslys. Borpallurinn var einungis 112 kílómetra undan Bandaríkjaströnd en í innan við 50 kílómetra fjarlægð er eyjaklasi sem er áfangastaður farfugla. Sérfræðingar óttast mjög áhrifin sem olían gæti haft á lífríki stranda, eyja og votlendis berist hún að landi. Vindar hafa verið hagstæðir til þessa og olíustraumurinn legið frá landi.

Nú þegar hefur olíubrákin breitt sig yfir svæði sem eru 1.550 ferkílómetrar að stærð. Alls 30 skip eru á vettvangi og vinna að hreinsun hennar.

Stefnt er að því að loka olíulindinni sem borpallurinn var yfir, en það getur tekið frá nokkrum tímum til margra mánaða. Borpallurinn var 121 metra langur og 78 metra breiður. Ellefu manns úr áhöfn hans er enn saknað.- sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×