Skoðun

Ylræktarver við jarðgufuvirkjanir gjörbreytir orkunýtingu

Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar
Í lok september birti Fréttablaðið grein eftir mig undir fyrirsögninni

„Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind". Ég benti þar á að í tveimur jarðorkuverum er nýtingin til fyrirmyndar, annars vegar á Nesjavöllum og hins vegar á Svartsengi. Á Nesjavöllum er gufuaflið fyrst látið snúa túrbínum sem framleiða rafmagn, síðan er gufan látin hita upp vatn í varmaskiptum. Það vatn nægir til að hita upp öll hús í Kópavogi, Garðabæ. Hafnarfirði og Álftanesi. En þá er nýting orkunnar komin upp í 85%. Þá sagði ég að tæplega væri hægt að komast lengra í nýtingu.

En þar skjátlaðist mér því jarðgufuvirkjunin á Svartsengi á líklega heimsmet í nýtingu jarðgufu. Þar er framleidd raforka með túrbínum, þar á eftir hitað upp vatn í varmaskiptum sem hitar upp öll hús á Suðurnesjum.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Eftir að gufan hefur farið í gegnum varmaskiptana þéttist hún og verður að vatni sem hefur samt enn í sér mikinn varma. Þetta vatn myndar Bláa lónið, þá víðfrægu bað- og heilsulind. Og ekki nóg með það; úr vatninu eru unnin margs konar heilsuefni sem m.a. vinna gegn psoriasis og fleiri húðkvillum.

Ég benti á það í minni fyrri grein að í Kröfluvirkjun væri hrikaleg sóun á auðlind, þar er aðeins framleitt rafmagn og gufunni síðan kastað með ærinni fyrirhöfn. Ég benti á það hvort ekki væri hægt að reisa geysiafkastamikið ylræktarver við Kröflu, þar væri næg hitaorka og reyndar hafði ég bent á þetta í mínum gömlu pistlum „Lagnafréttum" í Morgunblaðinu forðum. En þetta vakti enga athygli þar til Björk Guðmundsdóttir, okkar ágæti listaambassadör, kom í Návígi Þórhalls Gunnarssonar og ræddi um orkumálin af mikilli þekkingu.

Og hún benti á hvort ekki væri rétt að breyta um notkun á járngrindahúsunum við Helguvík og setja þar upp ylræktarver í stað álbræðslu. Og þar með flaug hugmyndin um ylræktarver til allra fjölmiðla og hefur verið talsvert í umræðu síðan.

En eins og við Kröfluvirkjun er hagkvæmast að ylræktarver væri nánast sambyggt orkuverinu.

Og hvers vegna?

Þá er hægt að spara allan kostnað við varmaskipta, þá þarf ekki að færa orkugjafann úr gufu yfir í vatn, þarna sparast mikill stofnkostnaður.

Það er einfaldlega hægt að hita upp ylræktarverið með gufukerfum, slík kerfi voru algeng á upphafstímum miðstöðvarhitunar á Englandi fyrir rúmri öld og gufukerfi hafa verið til margvíslegra nota hérlendis áður fyrr í fiskvinnsluverum og síldarbræðslum. Meira að segja Thor Jensen setti upp gufuketil þegar hann reisti sitt stóra bú að Korpúlfsstöðum, þar var gufan notuð til þvotta og dauðhreinsunar á mjólkurílátum. En þá var gufan ekki ókeypis, til að hún myndaðist þurfti að brenna kolum og síðar olíu.

En möguleikarnir eru til bæði á Suðurnesjum og við Kröflu. Satt best að segja finnst mér undarlegt að þetta hafi ekki vakið nokkurn áhuga þeirra sem telja sig mesta náttúruverndarmenn, þeir hafa yfirleitt ekki sparað að láta heyra í sér en um þetta hafa þeir þagað þunnu hljóði.

 




Skoðun

Sjá meira


×