Innlent

Segir ríkisstjórnina skulda þjóðinni svör

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Bjarni Benediktsson í Valhöll í gær.
Bjarni Benediktsson í Valhöll í gær.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að ríkisstjórnin skuldi þjóðinni skýringar á nýjum tíðindum um að íslenska ríkið muni líklega þurfa að greiða miklu minna vegna Icesave-reikninganna. Greint hefur frá því að upphæðin verði líklega ekki hærri en 75 milljarðar króna.

Eins og fréttastofa greindi frá fyrir helgi sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á haustráðstefnu KPMG á fimmtudag að nýjustu upplýsingar bentu til að heildarkostnaður ríkisins vegna Icesave-samninganna yrði ekki meiri en 5 prósent af landsframleiðslu. Verg landsframleiðsla á síðasta ári var 1500 milljarðar króna, en 5 prósent af því eru 75 milljarðar. Þetta er umtalsvert lægri fjárhæð en þeir samningar hljóðuðu upp á sem Alþingi samþykkti í lok síðasta árs, en forsetinn beitti eins og frægt er orðið synjunarvaldi samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar til að koma í veg fyrir að samningarnir yrðu að lögum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að í þeir sem hafi staðið að gerð síðustu samninga, sem gerðir voru í umboði ríkisstjórnarinnar, skuldi þjóðinni skýringar í ljósi nýrra upplýsinga um að Icesave-skuldin verði umtalsvert lægri fyrir ríkissjóð.

„Ég hef allan tímann talið að það myndi renna upp sá dagur að fólk sæi hvers konar hrapaleg mistök stjórnarmeirihlutinn var að gera hér á síðasta ári þegar þau ítrekað reyndu að þrýsta í gegn þessum óbilgjörnu Icesave-samningum í gegnum þingið og koma þeim skuldbindingum yfir íslensku þjóðina. Það eru vísbendingar um að það sé hægt að ljúka málinu núna með mun minni tilkostnaði, kannski hundrað milljarða lægri kostnaði fyrir Íslendinga, heldur en til stóð að gera. Það segir ekki neitt annað en að þeir sem bera ábyrgð á fyrri gerð samninga um lausn Icesave-deilunnar skulda Íslendingum svör," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×