Skoðun

Stofnun lagaráðs – tillaga til stjórnlagaþings

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar

Það er hlutverk Alþingis að sjá um lagasmíð og setja lög. Lagasetningarvaldið er æðsta hlutverk Alþingis og eru lög sem sett eru á Alþingi skipulag og leiðarvísir samfélagsins. Framkvæmdarvaldið leggur oftast fram lagafrumvörp, þ.e. ríkisstjórn en auk þess leggja þingmenn fram lagafrumvörp á Alþingi. Öll lagasmíð og framsetning lagafrumvarps krefst nákvæmi, stoða í önnur lög og reglugerðir. Það er ekki til neinn óháður vettvangur sem skoðar lagafrumvarp út frá því hvort frumvarpsdrögin séu í samræmi við stjórnarskrá, önnur lög eða stangist á við mannréttindi.

Á Íslandi er þingræðisregla, sem þýðir að ríkisstjórn á hverjum tíma styðst við meirihluta á Alþingi. Því hefur ríkisstjórn, þ.e. framkvæmdarvaldið töluvert vald gagnvart Alþingi þegar kemur að smíði lagafrumvarpa, vegna sérfræðiþekkingar og lagaþekkingar hjá framkvæmdarvaldinu.

Það getur reynst erfitt fyrir Alþingi að standast kröfur um samþykki frumvarps sem kemur frá ríkisstjórn, þegar formenn þeirra flokka sem mynda meirihluta ríkisstjórna eru jafnframt forystumenn ríkisstjórnar.

Það eru til nokkrar leiðir til að styrkja stöðu Alþingis hvað þetta atriði snertir og ein þeirra er stofnun sérstaks lagaráðs.

Hlutverk þess er að skoða öll frumvarpsdrög sem lögð eru fyrir Alþingi með tilliti til eftirfarandi:

- Hvort frumvarpsdrög eru í samræmi við stjórnarskrá og skipan réttarkerfisins almennt

- Hvort ákveði frumvarpsdraganna eru í samræmi við tilgang laganna

- Hvort lagafrumvarpsdrögin uppfylla kröfur um réttaröryggi

- Hvort samþykki frumvarpsdraganna skapi önnur réttarfarsleg vandamál

Lagaráðið á að skoða öll frumvarpsdrög áður en þau eru lögð fyrir alþingi. Lagaráðið verður óháð Alþingi og hafa þeir fulltrúar sem koma til með að sitja í ráðinu sömu stöðu og hæstaréttardómarar, þ.e. skipan fulltrúans er í samræmi við skipan hæstaréttardómara.

Í lagaráði eiga sæti þrír fulltrúar sem geta setið í ráðinu tvö ár í senn. Er það tillaga mín að þeir hæstaréttardómarar sem hafa hætt störfum, geti setið í lagaráði.

Fari svo að lagaráð hafni frumvarpsdrögum, verður flutningsaðili að draga frumvarpið til baka og gera þær lagfæringar sem lagaráð krefst að gerðar séu og leggja fram ný og breytt drög að lagafrumvarpi fyrir lagaráð.

Fyrirmynd að þessari tillögu sæki ég til svipaðs fyrirkomulags sem ríkir í Svíþjóð. Þar er til lagaráð sem fer yfir öll frumvarpsdrög sem lögð eru fyrir sænska þingið og eru til mörg dæmi þess að lagaráðið hefur hafnað frumvarpsdrögum og krafist breytinga.

Það er tillaga mín að stofnun lagaráðs verði eitt af þeim atriðum sem stjórnlagaþing mun fjalla um í störfum sínum. Eitt af ákvæðum nýrrar stjórnarskrár verður því um lagaráð.






Skoðun

Sjá meira


×