Skoðun

Um umhverfis- og auðlindamál

Júlíus Sólnes skrifar
Stjórnlagaþingskosningarnar eru um margt einstæðar. Þetta er fyrsta alvöru tilraun okkar til beins lýðræðis, og sá mikli fjöldi sem býður sig fram, gefur til kynna mikinn áhuga fólks á betra þjóðfélagi á grunni nýrrar stjórnarskrár. Mikil og jákvæð umræða hefur einkennt kosningabaráttuna, og frambjóðendur hafa deilt hugmyndum sínum um nýjan samfélagssáttmála. Mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að umhverfismálum fyrir kosninguna á laugardag. Nær allir frambjóðendur eru sammála um, að í stjórnarskrá skuli standa að auðlindir landsins eigi að vera í eigu þjóðarinnar. Miklu færri hafa látið sig umhyggju fyrir náttúru landsins og umhverfisvernd varða. Ef til vill er fögur náttúra Íslands og nær óspillt hálendið mesta náttúruauðlind okkar.



Ég minnist þess, þegar umræðan um stórvirkjun á Austurlandi stóð sem hæst, kom hingað háttsettur embættismaður Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna í Washington D.C. Rektor Háskóla Íslands bauð nokkrum okkar að hitta hann á fundi upp í Háskóla. Það vakti athygli okkar, að þessi bandaríski gestur hafði lagt á sig að fara til Austurlands og skoða virkjunarsvæðin sem þá voru til umfjöllunar. Honum mæltist á þá leið, að nær ósnortið hálendi okkar væri óendalega miklu meira virði, til langs tíma litið, en virkjanir og álver. Ættum við að hugsa okkur um vel og lengi áður en ráðist yrði í stórframkvæmdir á hálendinu. Þótt sjálfsagt sé að nýta hagkvæma virkjunarkosti, má það aldrei verða til þess, að náttúru landsins sé spillt að óþörfu.

Efnahagslegur ávinningur fyrir þjóðina þarf að vera mikill, til að hægt að sé að sætta sig við þau miklu umhverfispjöll sem óneitanlega fylgja stórum vatns- og jarðvarmaorkuverum. Þess vegna tel ég mikilvægt, að skýr ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd verði fest í stjórnarskrá landsins. Það er grundvallaratriði, að við skilum landinu til afkomenda okkar í sambærilegu ástandi og við tókum við því. Þetta kallar einnig á sjálfbæra þróun þjóðfélagsins. Er til dæmis sjálfgefið, að við sem nú lifum, eigum að virkja allt sem virkjanlegt er og ráðstafa orkunni nú þegar. Má ekki skilja eitthvað eftir handa næstu kynslóðum?

Að lokum langar mig til þess að slá á léttari strengi. Ríkisskattsjóri hefur óskað eftir kostnaðaruppgjöri frambjóðenda vegna kosningabaráttunnar. Ég hef keypt tvær súkklaðitertur og rjómaspraut með sem ég hef boðið vinnufélögum mínum upp á með morgunkaffinu. Þá greiddi ég ásamt mjög mörgum frambjóðendum fimm þúsund krónur til hvatningarhóps frambjóðenda. Hafa þeir fjármunir verið notaðir til að hvetja fólk til þess að kjósa, en nöfn frambóðenda ekki nefnd.






Skoðun

Sjá meira


×