Innlent

Efnahagsaðgerðir: Reynt til þrautar að ná samkomulagi

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Ríkisstjórnin reynir nú til þrautar að ná samkomulagi um efnahagsaðgerðir sem hægt verði að kynna í dag. Mikil fundahöld hafa verið í stjórnarráðinu í morgun. Nú fyrir hádegi komu fulltrúar opinberra starfsmanna, Alþýðusambandsins og Hagsmunasamtaka heimilanna til fundar við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisrðaherra, Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Guðbjart Hannesson, félags- og heilbrigðisráðherra og Árna Pál Árnason, viðskiptaráðherra. Steingrímur sagði í viðtali við fréttastofu seinni partinn í gær að niðurstaða yrði að nást á næstu klukkustundum, helst í dag eða á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ætla forystumenn ríkisstjórnarinnar að kynna fjölþættar aðgerðir til lausnar skuldavanda heimila og fyrirtækja síðar í dag. Þær munu meðal annars kveða á um lækkun greiðslubyrði lána í samvinnu við banka og lífeyrissjóði, hækkun vaxtabóta upp á allt að sex milljarða króna og stofnun félaga utan um auðar íbúðir sem settar verða á leigumarkað. Með stofnun slíkra félaga er vonast til að fasteignaverð hætti að lækka og fasteignamarkaðurinn taki við sér á ný.

Skýrist á næstu klukkustundum

Fjármálaráðherra sagði einnig í samtali við fréttastofu í gær að aðgerðirnar myndu kosta ríkisstjóð töluverðar fjárhæðir og gera þurfa breytingar á því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyri þinginu, en afgreiðsla þess er eitt af því sem ýtir á að samkomulag náist sem allra fyrst.

Friðrik Ó. Friðriksson, stjórnarformaður Hagsmunasamtaka heimilanna, sagði í samtali við fréttastofu eftir fundinn í morgun að þær aðgerðir sem gripið yrði til nú gætu orðið hluti af enn frekari uppstokkun sem nauðsynleg er til að koma í veg fyrir enn frekari fólksflótta frá landinu. M.a. þyrfti að endurskoða lífeyrissjóðakerfið og fjármögnun þess.

Það skýrist því væntanlega á næstu klukkustundum hvort aðgerðirnar líti dagsins ljós í dag. Við fylgjumst með atburðarrásinni á fréttavefnum visi.is og í kvöldfréttum okkar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×