Erlent

Danmörk í hóp tíu ríkustu

Lars Løkke Rasmussen setur ríkisstjórn sinni háleit markmið.
nordicphotos/AFP
Lars Løkke Rasmussen setur ríkisstjórn sinni háleit markmið. nordicphotos/AFP

Danska stjórnin setur sér háleit markmið í nýrri stefnuyfirlýsingu, sem Lars Løkke Rasmus­sen forsætisráðherra og Lene Espersen, nýr utanríkisráðherra, kynntu í gær. Daginn áður hafði Rasmussen stokkað upp í stjórninni með gjörbreyttri ráðherraskipan.

Meðal annars stefnir stjórn frjálslyndra og íhaldsmanna að því að Danmörk verði eitt af tíu ríkustu löndum heims. Einnig er stefnt að því að atvinnustig verði með því sem best gerist í heiminum, dönsk skólabörn verði með þeim allra duglegustu í heimi, og í það minnsta einn danskur háskóli verði í hópi tíu bestu háskóla heims.

Þá er stefnt að því að frelsi verði meira í Danmörku en víðast hvar annars staðar og að óvíða gangi aðlögun útlendinga að samfélaginu betur en þar.

Til þess að ná þessum markmiðum, og fleiri til af svipuðu tagi, er sett fram starfsáætlun í 76 liðum þar sem meðal annars er stefnt að ströngu aðhaldi í ríkisfjármálum, fimm þúsund nýjum störfum á næsta ári, tryggt verði að dönsk börn verði fljúgandi læs að loknum öðrum skólabekk og sjúklingum verði gert auðveldara að leggja fram kærur – svo aðeins fátt sé nefnt af þessum 76 liðum. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×