Skoðun

Niðurskurður má ekki koma niður á mannréttindum

María Gyða Pétursdóttir skrifar

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, um að leggja af heimahjúkrun langveikra og fatlaðra barna, hefur víða vakið hörð viðbrögð. Sumir sem um málið hafa fjallað tala um að hreinlega sé um mannvonsku eða heimsku að ræða. Líklegra er að ákvörðunin sé byggð á skorti á skilningi á aðstæðum þeirra barna sem njóta þjónustunnar.

Í 23.grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var staðfestur fyrir Íslands hönd árið 1992, kemur eftirfarandi fram: „Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það."

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands er augljóst brot á þessari grein.

Nauðsyn niðurskurðar og ástæður hans eru þjóðinni vel kunnar. Ríkisstjórn Íslands stendur frammi fyrir gríðarlega erfiðum ákvörðunum og ekki er rétt að draga í efa allar þær ákvarðanir um niðurskurð sem teknar hafa verið. Engum líkar niðurskurður, sér í lagi ekki þegar um er að ræða mikilvæga þjónustu sem fólk hefur hingað til notið góðs af, en einhvers staðar verður að draga línuna.

Forgangsröðun er afar mikilvæg þegar veigamiklar ákvarðanir eru teknar um niðurskurð. Huga þarf sérstaklega að því, þegar slíkar ákvarðanir eru teknar, að ekki sé brotið á réttindum barna eða fullorðinna. Þar sem heimahjúkrun langveikra eða fatlaðra barna er nauðsynleg öllum þeim er hana þiggja, hefur niðurskurður þessarar þjónustu í för með sér gríðarlega skerðingu á lífsgæðum þessara barna.

Ungmennaráð er liður í starfi Barnaheilla - Save the Children á Íslandi sem eru leiðandi og frjáls félagasamtök sem vinna að mannréttindum barna um allan heim. Meðlimir ungmennaráðsins eru ekki fullorðnir heldur ungmenni. Við viljum endurspegla sjónarmið barna til hinna ýmsu mála sem varða börn og þar með okkur sjálf. Ungmennaráðið hefur sent Heilbrigðisráðuneytinu og Sjúkratryggingum Íslands áskorun um að beita sér fyrir endurskoðun þessarar ákvörðunar. og er það mín ósk að rödd okkar, ásamt öllum þeim, sem berjast fyrir rétti þessara barna, verði heyrð.






Skoðun

Sjá meira


×