Erlent

Reynt að stöðva mesta lekann

Vonast er til þess að í dag verði hægt að sökkva þessari hvelfingu niður á hafsbotn til að stöðva mesta lekann.
fréttablaðið/AP
Vonast er til þess að í dag verði hægt að sökkva þessari hvelfingu niður á hafsbotn til að stöðva mesta lekann. fréttablaðið/AP

-AP- Hundrað tonna stál- og steinsteypuhvelfing var sett á flutningapramma í hafnarbænum Port Fourchon í gær og siglt af stað út á Mexíkóflóa. Þar verður hún látin síga niður á hafsbotn til að loka fyrir leka úr stærsta olíubrunninum af þremur, sem opnuðust þegar olíuborpallur þar sökk fyrir tveimur vikum.

Olían sem streymir úr borholunni verður síðan leidd upp í olíuflutningapramma, og er vonast til þess að allt verði tilbúið til þess um helgina. Nokkuð magn af olíu hefur nú þegar borist á land við strendur Mexíkóflóa, en óttast er að mengunin við strendurnar verði alvarleg ef ekki tekst að stöðva olíustrauminn hið fyrsta. Um 800 þúsund lítrar af olíu streyma út í hafið dag hvern.

Strandgæslan vonast til þess að geta safnað saman olíu á yfirborði sjávar og kveikt í, en slíkt var gert 28. apríl og þá tókst að eyða þúsundum lítra af olíu. Veðurskilyrði hafa ekki leyft aðra tilraun. Nærri átta þúsund manns vinna hörðum höndum að því að halda olíunni í skefjum. Enn er unnið að því að setja upp flotgirðingar til að verja viðkvæmar strendur flóans. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×