Skoðun

Fullveldishugsjónin

Fullveldishugsjón Íslendinga er nú – og hefur verið mörg undanfarin ár – á fallanda fæti. Það sem batt þjóðina saman, svo að hún væri ekki algerlega hugsjónalaus um sameiginleg markmið tilheyrir liðinni tíð. Þjóðin sem heild, stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök, er klofin í afstöðu sinni til fullveldis og sjálfstæðis. Framsóknarmenn geta horft í eigin barm.

En áhugaleysið um fullveldið hefur fleira í för með sér. Þá nefni ég það til sögunnar sem mörgum þykir síst saknaðarefni, að stjórnmálaflokkunum hefur tekist að hegða sér þannig, að fólk hefur misst á þeim traust, ekki ófyrirsynju.

Stjórnmálaflokkar voru í upphafi og eiga að vera hugsjóna- og hagsmunasamtök. Fjarri fer því að stjórnmálaflokkar eigi að líkjast hver öðrum. Þvert á móti! Þeir eiga að vera skýrt afmarkaðir hver frá öðrum. Það sakar ekki, þótt þeir fjandskapist hver við annan. Fólk þarf að finna mun á flokkunum. Af einhverjum ástæðum er svo komið að almenningur þykist ekki finna neinn mun á þeim. Það er eins og markalínurnar séu máðar út. Þetta hefur ekki orðið til annars en að fólk missir áhuga á þeirri skipulögðu stjórnmálastarfsemi sem flokkarnir eiga að sinna og marka sér pólitíska meginstefnu eftir lífsviðhorfum og réttmætum hagsmunum. Flokkar eru ekki að svíkja þjóðareininguna, þótt þeir bendi á og sjái fyrir sér að þjóðin er lagskipt, stéttskipt (ef menn vilja nota það orð) og móta stefnu sína eftir því. Heiðarleiki stjórnmála verður best tryggður með því að flokkarnir varist hræsni, það að snobba niður á við eða upp á við. Þegar flokkur kallar sig flokk allra stétta, þá er það hræsni. Þegar blað kallar sig blað allra landsmanna, þá er það hræsni.

Vantraust fólks á flokkunum eins og nú er komið lýsir sér í áhugaleysi á virkri, skipulagðri stjórnmálastarfsemi, raunar pólitískum doða, sem fullheimilt er að kalla hugsanaleti. En þessi hugsanaleti er samt ekki meiri en það (sem þó er ranghverfa á lýðræðislegri hugsun) að fólk hellir sér út í eiginhagsmunaþjark, sjálfhverfa vorkunnsemi um einkamál eða einhver svo gjörprívat áhugamál að engan varðar um slíkt röfl. Íslensk blöð bera þessari ranghverfu lýðræðislegrar umræðu glöggt vitni. Þau eru uppfull af rausi fúllyndra manna sem halda að það sé upphaf og endir lýðræðis að hella úr skálum reiði sinnar út af alls kyns hégóma, þröngsýni, smámunasemi og eigingirni.

Ekki tekur betra við á bloggsíðunum, þó að þar sé að finna gleðilegar undantekningar. Innan um þær ótöldu milljónir fáráða sem koma sér upp bloggsíðum í heiminum, eru margir úrvalsblaðamenn sem valda hlutverki sínu og mark er á takandi. Búsáhaldabyltingin hér á landi ætlar að verða það eina sem ráðvillt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur mark á, þó að okkur friðsemdarmanneskjum þyki slíkur tjáningarmáti „á mörkunum“. En þá kemur á móti að það var örvinglað fólk sem þarna var að verki, fólk sem hafði verið blekkt með gylliboðum siðblindra fésýslumanna og höfðu leikið lausum hala fyrir lokuðum augum stjórnmálamanna og embættismanna.

Ráðandi öfl í þjóðfélaginu voru samgróin kröfu kapitalista um minnkandi ríkisafskipti og inngrip í umsvif auðvaldsins sérstaklega. Auðvaldsboðskapurinn hafði treyst stöðu sína hægt og bítandi, þar til steininn tók úr. Þessi boðskapur var fluttur í nafni frelsis, „frjálshyggja“ skyldi það heita. Hinn fjölþætti „liberalismi“ eins og hann var túlkaður af John Stuart Mill var orðinn að nútímaafskiptaleysisstefnu í þágu auðvaldsins. Hér var því ekki sungin nein frelsishvöt í venjulegum skilningi. Nafngiftin, frjálshyggja, var herbragð í þágu þeirra sem sóttu fram á pólitískum vígvelli auðvaldsöflum til framdráttar. Forusta Framsóknarflokksins sá ekki við þessari þróun, en horfði upp á það að samvinnuhreyfingunni var tvístrað, sparisjóðirnir urðu bröskurum að bráð og landsbyggðinni blæddi.

Þetta kapitalíska þróunarferli hér á landi er dapurlegur kafli í samtímasögu landsins. Freistandi væri að rekja þá sögu stig af stigi og mér ekki minni freisting en mörgum öðrum. En í vangaveltum mínum á þessu stutta minnisblaði læt ég nægja að benda á að ferlið er snúið mörgum þáttum, stefnum og straumum sem að lokum sameinuðust í einum streng. Trúin á sjálfstætt þjóðríki sem stjórnað væri af hófsemd með tilliti til þess að Íslendingar eru fámenn þjóð, stendur nú völtum fótum. Vaxandi hljómgrunnur er fyrir kenningunni um að dagar sjálfstæðs þjóðríkis séu úr sögunni. Hitt á að tryggja öryggi og efnalega farsæld að afsala fullveldinu eða takmarka það og framselja og gerast aðilar að Evrópusambandinu, sem þegar hefur mótast sem bandaríki (federal states) samkvæmt skipulagi sínu, þótt tregðast sé við að nefna það réttu nafni. Mig undrar hversu sjaldgæft það er að menn ræði aðild að ESB sem grundvallarbreytingu á stjórnskipun landsins og stórfellt skilningsleysi á mikilvægi sjálfstæðis eins og það sé lítils virði, en trúa á og boða sem vissu það sem ómögulegt er að sanna, að efnahagslíf þjóðarinnar eflist og þjóðaröryggið vaxi með aðild að ESB.

Slíkt er þó einungis byggt á völvuspám og völtum líkindareikningi. Um þau efni er þjóðin ofurseld áhrifavaldi pólitískra spunameistara og viðskiptaspekúlanta. Hefur þjóðin ekki fengið nóg af framreikningskúnstum gagnrýnislausra tölfræðinga? – Framhald birtist síðar.



Skoðun

Sjá meira


×