Skoðun

Lausnin felst í réttlæti ekki ölmusu

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir skrifar

Samviskufangar heimsins í dag eru hinir snauðu. Þær milljónir sem njóta ekki mannréttinda og lifa við fátækt. Fangelsið er stórt og það er að finna um allan heim. Fangelsið er rammbyggt og byggingarefnið eru mannréttindabrot. Mannréttindabrot sem viðhalda traustum múrum fangelsis. Skortur á efnislegum gæðum er vissulega ein birtingamynd fátæktar, sú birtingarmynd sem flestir einblína á. En fátækt snýst ekki eingöngu um skort. Fátækt snýst öðru fremur um öryggisleysi, kúgun, spillingu, ofbeldi, mismunun, útilokun og raddleysi.

Baráttan gegn fátækt þarf að breytast, útrýming fátæktar getur ekki falist eingöngu í hagvexti og aukinni landsframleiðslu, þaðan af síður í ölmusu.

Auknar tekjur einar og sér binda ekki enda á mannréttindabrot. Lausnin felst fyrst og fremst í virðingu fyrir mannréttindum. Lausnin felst í því að beina sjónum að þeim mannréttindabrotum sem skapa fátækt og halda fólki í fjötrum hennar.

Því er gerð ríka krafa á ríkisstjórnir, alþjóðastofnanir, fyrirtæki og fjármálastofnanir að byggja allar aðgerðir gegn fátækt á virðingu fyrir mannréttinum, bæði heima og heiman.

Mannréttindi fyrir alla

Hinn 10. desember árið 1948 var Mannréttindayfirlýsingin samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ætíð síðan hefur 10. desember verið alþjóðlegi mannréttindadagurinn. Mannréttindasamtökin Amnesty International byggja starf sitt á Mannréttindayfirlýsingunni og telja afar mikilvægt að hver og einn sé meðvitaður um efni hennar og leggi sitt af mörkum til að réttindi þau, sem þar eru skráð, verði virt.

Starf Amnesty International tryggir að fórnarlömb mannréttindabrota gleymast ekki og ríkisstjórnir sem gerast brotlegar komast ekki upp með mannréttindabrot án þess að athygli umheimsins beinist að þeim. Þess vegna minnir Amnesty International nú enn og aftur allar ríkisstjórnir heims á þau réttindi sem skráð eru í Mannréttindayfirlýsingunni, réttindi sem yfirvöldum ber að tryggja og um leið hvetja samtökin almenning til að styðja mannréttindabaráttu Amnesty International.

Áskorun til íslenskra yfirvalda

Eitt af baráttumálum Amnesty International er að fólk geti dregið stjórnvöld til ábyrgðar þegar efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi eru vanvirt. Í dag, á alþjóðlega mannréttindadaginn eru tvö ár liðin frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma valfrjálsa bókun við alþjóðasamninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Íslandsdeild Amnesty International hefur nú ítrekað fyrri áskoranir til íslenskra yfirvalda um að Ísland undirriti og fullgildi bókunina.

Bókunin opnar kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem brotið er á. Hún er mikilvægt skref í þeirri viðleitni að tryggja aðgang að réttlæti fyrir þolendur mannréttindabrota. Fólk sem lifir í sárri fátækt og hópar á jaðri samfélaga sætir alvarlegustu brotunum á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, þar með talið réttinum til húsnæðis, fæðis, vatns og hreinlætis, svo og réttinum til heilsu og menntunar.

Amnesty International telur að mannréttindi verði að vera miðlæg í allri viðleitni til að draga úr fátækt. Með því að gerast aðili að bókuninni myndi ríkisstjórn Íslands sýna að hún er reiðubúin til að koma fram af ábyrgð gagnvart þeim sem búa við fátækt. Fullgilding bókunarinnar er raunhæft skref í átt að útrýmingu fátæktar bæði heima og heiman.

Það er löngu tímabært að tryggja aðgang að úrræðum fyrir fórnarlömb allra mannréttindabrota. Fórnarlömb brota á efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum hafa ekki notið sömu verndar og fórnarlömb brota á borgaralegum og stjórnmálalegum réttindum. Fullgilding bókunarinnar er því mikilvægt skref til að tryggja alþjóðlega vernd og réttlæti til handa fórnarlömbum allra mannréttindabrota.








Skoðun

Sjá meira


×