Skoðun

Villandi umfjöllun Morgunblaðsins

Í fréttaflutningi Morgunblaðsins að undanförnu um (sjónvarps)auglýsingar fyrirtækja Haga á sjónvarpsstöðvunum hefur verið gefið í skyn að Hagar noti 95% af auglýsingafé sínu hjá Stöð 2.

Rétt er að samtals hafa Hagar fengið 89.058 sekúndur í birtingum á sjónvarpsmiðlum 365 frá áramótum og að 10-11 hafa fengið 67.609 sekúndur af þeim. En hefðu ekki einhverjar bjöllur átt að hringja hjá blaðamönnum Morgunblaðsins þegar þeir sáu hvað 10-11 var með stóran hluta af þessum birtingum? Nei, blaðið ákvað að keyra áfram fréttaflutninginn eins og ekkert hefði í skorist.

Hið rétta er að 10-11 er einn af styrktaraðilum enska boltans og fær þess vegna mjög mikið af birtingum fyrir lítið fé utan háannatíma á öllum stöðvum, hið sama gildir um önnur fyrirtæki sem auglýsa hjá miðlunum. Mikið er um endursýningar á stöðvum okkar utan háannatíma og þó að það sé fyrst og fremst hugsað sem þjónusta við áskrifendur, þá gagnast þessar endursýningar auglýsendum um leið, því að auglýsingarnar eru jafnframt endursýndar með þessum þáttum af tæknilegum ástæðum. Margar af auglýsingasekúndunum, sem Morgunblaðið reiknar Högum, birtast því allan sólarhringinn í endursýndu efni á sportstöðvunum.

Þess vegna er ekki hægt að stilla upp sjónvarpsstöð eins og RÚV, sem er með takmarkaðan útsendingartíma á einni stöð, andspænis mörgum stöðvum sem senda út margfalt lengur og nota síðan sekúndur sem mælikvarða. Það skekkir myndina.

Það er eðlilegri samanburður að taka Stöð 2 eina og sér og bera saman við RÚV og Skjá Einn á lykiltíma sem er á milli kl. 18 og 23 á kvöldin. Þá fyrst er orðið raunhæft að bera saman auglýsingatíma í sekúndum. Í því tilviki eru hreinar auglýsingar Haga á fyrstu sex mánuðum ársins með eftirfarandi hætti í miðlunum: á RÚV eru 384 sek, á Skjá Einum eru 300 sek og á Stöð 2 eru 767 sek. Þannig að 53% auglýsinga eru á Stöð 2, 26% á RÚV og 21% á Skjá Einum. Það er síðan annað mál að sekúndur eru ekki áreiðanlegasti mælikvarðinn því að þær eru á mjög misjöfnu verði.

Auglýsendur á Stöð 2 eru að sækjast eftir eftirsóknarverðasta markhópi landsins. Sá helmingur þjóðarinnar sem býr á áskriftarheimilum ver 67% meiri tíma við sjónvarpið en hinn helmingurinn, þannig að auðvelt er að ná til þeirra um miðilinn. Það þarf hins vegar að gerast að miklu leyti í gegnum Stöð 2, þar sem áskrifendur verja yfirgnæfandi hluta „sjónvarps“tíma síns í áhorf á hana. Þessi helmingur þjóðarinnar hefur um 12% hærri ráðstöfunartekjur að meðaltali en hinn helmingurinn.

Fréttamenn Morgunblaðsins vilja sjálfsagt stunda fagleg vinnubrögð, en sá samanburður sem þeir hafa gert á sjónvarpsauglýsingum endurspeglar ekki veruleikann. Þá er ónefnd framsetning Morgunblaðsins á tölum sem varða auglýsingar í dagblöðum en ekki er rúm til að fara nánar út í það hér.

Athugasemd greinarhöfundar: Óskað var eftir að þessi grein fengist birt í Morgunblaðinu vegna þess að í henni er brugðist við villandi fréttaflutningi þess blaðs. Í svari ritstjóra Morgunblaðsins til greinarhöfundar segir að við því verði ekki orðið þar sem greinin sé hluti af auglýsingaherferð 365 miðla og önnur grein hafi borist um sama efni (sem ekki birtist heldur). Sú grein og auglýsingar 365 miðla hafa hins vegar beinst að því að leiðrétta villandi umfjöllun Morgunblaðsins um auglýsingar á prentmarkaði en ekki auglýsingar í sjónvarpi eins og umfjöllunarefni þessarar greinar. Undirritaður verður að draga þá ályktun að Morgunblaðið treysti sér einfaldlega ekki til að birta greinar sem afhjúpa þá bjögun í framsetningu sem blaðið heldur að lesendum sínum, þegar hagsmunir þess sjálfs eiga í hlut.



Skoðun

Sjá meira


×