Skoðun

Horfum til framtíðar í Hafnarfirði

Guðmundur Rúnar Árnason skrifar

Stjórnskipan Íslands byggir á lýðræði, þótt þess sé ekki beinlínis getið í stjórnarskránni, líkt og er í stjórnarskrám sumra annarra ríkja. Það kann að breytast í kjölfar stjórnlagaþingsins sem er framundan.

Sú umræða er ágeng, að áhugi almennings á stjórnmálum fari minnkandi, en án almennrar þátttöku í stjórnmálum er hætta á að lýðræðinu hnigni. Rannsóknir hér á landi, fyrir efnahagshrunið, bentu til þróunar í þessa átt.

Kosningaþátttaka er almennt mikil en traust almennings á stjórnmálamönnum og á stofnunum lýð­ræðisins hefur farið minnkandi á undanförnum árum og áratugum - og hrapað í kjölfar efnahagshrunsins.

Spyrja má hvort aðrar leiðir en hefðbundið fulltrúalýðræði séu færar til að stuðla að grunnmarkmiði lýðræðisins, þ.e. að uppspretta valdsins sé hjá almenningi sjálfum. Í þessu sambandi hefur hugtakið íbúalýðræði komið fram en það hefur verið skilgreint þannig að undir það falli öll tilvik þar sem einstaklingum og/eða hagsmunaaðilum er veitt tækifæri til að vinna með yfirvöldum að stefnumótun (eða ákvarðanatöku), eða yfirvöld leita eftir skoðunum íbúa og/eða hagsmunaaðila og hafa þær til leiðsagnar við ákvörðun sína.

Í Hafnarfirði er sterk hefð fyrir íbúalýðræði, samráði og samvinnu við íbúa. Haldin hafa verið unglingaþing, íbúaþing, álvers­kosningarnar og reglulega eru haldnir samráðsfundir með íbúum, nú síðast um fjárhagsáætlun næsta árs.

Á laugardaginn ætlum við að blása til Gaflarakaffis þar sem möguleikar íbúanna til að hafa áhrif á nærumhverfið verða til umræðu. Um leið gefst bæjar­búum tækifæri til að koma að mótun lýðræðisstefnu bæjarins.

Íbúaþing eins og þetta er mikilvægur vettvangur fyrir bæjarbúa til að koma sjónarmiðum sínum, tillögum og áherslum á framfæri. Fyrir hönd bæjarstjórnar hvet ég Hafnfirðinga alla til að vera virkir þátttakendur í umræðunni um bæinn okkar, samfélagið, þjónustuna og umhverfið.

Með því leggjum við okkar að mörkum á laugardaginn til að gera góðan bæ enn betri. Allar hugmyndir og tillögur skipta máli fyrir okkur öll.








Skoðun

Sjá meira


×