Erlent

Burberry-fyrirsæta stökk út um glugga í Mílanó

Tinni Sveinsson skrifar
Samkvæmt vinum hans var Tom þunglyndur eftir sambandsslit við kærustu sína. Hann var 22 ára.
Samkvæmt vinum hans var Tom þunglyndur eftir sambandsslit við kærustu sína. Hann var 22 ára. Mynd/AFP

Franska fyrirsætan Tom Nicon lést í gær eftir að hann stökk út um glugga íbúðar sinnar í 12 metra hæð í miðborg Mílanó. Hann átti að koma fram á sýningu hjá breska tískuhúsinu Burberry nokkrum klukkustundum seinna en hann var ein aðalfyrirsæta þess.

Tískuvikan í Mílanó hófst um kvöldið og voru samstarfsmenn Nicon í áfalli eftir sjálfsvígið. „Við skiljum ekkert í þessu. Tom var með okkur á föstudaginn á búningaæfingu. Hann virtist rólegur. Við bjuggumst ekki við því að hann myndi gera neitt þessu líkt. Þetta var ljúfur drengur," sagði Donatella Versace tískudrottning en auk Versace og Burberry vann Nicon einnig fyrir Louis Vuitton og Hugo Boss.

Lögreglan í Mílanó segist rannsaka málið sem sjálfsvíg þar sem vinir Tom sögðu hann niðurbrotinn eftir sambandsslit við kærustu sína. Hafði hann þjáðst af þunglyndi vegna þessa.

Tískuheimurinn hefur þurft að glíma við nokkur áföll þessu lík að undanförnu. Breski hönnuðurinn Alexander McQueen framdi sjálfsvíg í febrúar, franska fyrirsætan Noemie Lenoir rétt bjargaðist eftir sjálfsvígstilraun í París fyrir skömmu og suður-kóreska fyrirsætan Daul Kim framdi sjálfsvíg í París í fyrra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×