Erlent

Telja flugbannið allt of víðtækt

Frá alþjóðaflugvellinum í Incheon í Suður-Kóreu í dag. Farþegar þar komust ekki til Evrópu vegna eldgossins. Mynd/AP
Frá alþjóðaflugvellinum í Incheon í Suður-Kóreu í dag. Farþegar þar komust ekki til Evrópu vegna eldgossins. Mynd/AP
Milljónir manna þurftu að breyta ferðaáætlunum sínum í dag þar sem flugsamgöngur voru enn lamaðar vegna öskudreifingar. Evrópsk flugfélög, sem hafa sent mannlausar farþegaþotur í reynsluflug án sýnilegs tjóns, efast um flugbannið og telja það allt of víðtækt.

Í Evrópu og víðar eru milljónir strandaglópa vegna öskunnar úr Eyjafjallajökli. Um 20 lönd lokuðu fyrir alla flugumferð nú um helgina og sum þeirra hafa framlengt bannið fram á morgundaginn, meðal annars Belgía, Búlgaría, Tékkland, Danmörk, Finnland, Lettland, Lúxemborg, Bretland og Slóvakía. Askan hefur því nú valdið meiri röskun á flugi en hryðjuverkaárásirnar ellefta september.

Neyðarfundur

Ríkisstjórn Bretlands kom saman til neyðarfundar seinnipartinn í dag vegna málsins. Íhaldsflokkurinn vilja að ríkisstjórnin beiti breska hernum til að stoða breska ferðamenn heim.

Evrópsk flugfélög hafa óskað eftir endurmati á flugbanninu vegna öskunnar. Samtök flugfélaga í Evrópa setja spurningamerki við umfang flugbannsins og segja það allt of víðtækt. Þau telja að stjórnvöld hafi sýnt of mikla varúð. Hætta vegna öskudreifingar sé ekki jafn mikil og stjórnvöld telji, miðað við núverandi flugbann.

Önnur hver flugferð verði á áætlun

Talið er að askan sem er blanda af gleri, sandi og steinögnum geti skaðað vélbúnað flugvélanna. Hollenska flugfélagið KLM sendi eina af Boeing 737 vélum sínum í reynsluflug og að sögn talsmanna félagsins lenti vélin ekki í neinum vandræðum. Lufthansa og Air Berlin gerðu slíkt hið sama vandræðalaust og það var sömuleiðis niðurstaðan af reynsluflugi Air France.

Fram kom á blaðamannafundi Eurocontrol í dag að evrópsk flugmálayfirvöld vonist til þess að 50% flugferða verði á áætlun á morgun.

Flugbannið er háð stöðugu endurmati, en breskir fréttaskýrendur segja að flugsamgöngur verði komnar í eðlilegt horf í fyrsta lagi á fimmtudaginn í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×