Viðskipti innlent

Skilanefnd vann mál og fær aðgang að 100 milljörðum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Skilanefnd Landsbankans hefur með dómi í Amsterdam fengið full yfirráð yfir 100 milljarða króna útibúi Landsbankans í Hollandi. Féð á að ganga upp í Icesave.

Hollensk stjórnvöld beittu sér fyrir því strax við bankahrunið að tveir hollenskir skiptastjórar tækju við skiptum útibús Landsbankans þar í landi og hafa þeir síðan stjórnað því. Skilanefnd Landsbankans hefur frá byrjun haldið því fram að skipun þeirra hafi verið ólögmæt og Héraðsdómur Amsterdamborgar hafnaði í gær að framlengja skipunartíma skiptastjóranna tveggja og dæmdi því skilanefndinni í vil. „Þetta hefur geysimikla þýðingu fyrir okkur. Þetta er búið að vera langt stríð. Við höfum andmælt þessari skipan frá upphafi," segir Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans.

Lárentsínus segir að niðurstaðan sé sú að nú fari skipti á útibúinu alfarið samkvæmt íslenskum lögum og greiðslustöðvun Landsbankans sé viðurkennd. Hann segir að svo lengi sem þessari niðurstöðu verði ekki skotið á æðra dómstig, sem takmarkaðar líkur eru á, fái skilanefndin full yfirráð yfir útibúinu í Hollandi, en um er að ráða vaxtaberandi útlánasafn til fyrirtækja í Hollandi og víðar. Er mikið af peningum í útibúinu? „Ég held ég muni það rétt að það séu yfir hundrað milljarðar í lánabókinni þarna í Amsterdam," segir Lárentsínus. Þessi niðurstaða mun einnig þýða að hægt verður að skera niður kostnað við búskiptin í Hollandi.

„Þessi tvöfalda slitameðferð hefur kostað bú Landsbankans vel yfir sjö hundruð milljónir. Það verður mikill léttir að losna við þann kostnað," segir Lárentsínus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×