Lífið

Annað gildi hlutanna

Katla við fjársjóðskistuna sína sem geymir litla muni úr náttúrunni. Fréttablaðið/GVA
Katla við fjársjóðskistuna sína sem geymir litla muni úr náttúrunni. Fréttablaðið/GVA
Katla Maríudóttir er náttúrubarn og segir verðmæti hluta ekki teljast í krónum. Hún er í hópi útskriftarnema í arkitektúr við Listaháskóla Íslands þetta árið og hleypti Fréttablaðinu inn á gafl hjá sér.

Þegar Katla er beðin um að segja frá uppáhaldshlutunum sínum á heimilinu opnar hún lítinn kistil. sem hún kallar fjársjóðskistu, og tínir upp úr honum steina og hluti sem hún hefur tínt úti í náttúrunni. Hlutirnir minna hana á heimahagana.

„Ég ólst upp í sveit á fallegum stöðum eins og Þingvöllum, Skálholti og Skaftártungum og við systkinin lékum okkur mikið úti. Nú þegar ég er flutt til borgarinnar finnst mér nauðsynlegt að hafa litla hluti í kringum mig eins og steina, hraunmola, skeljar og rekaviðarbúta, sem minna mig á náttúruna. Þeir eru auðvitað verðlausir fyrir öðrum en skipta mig máli."

Katla hefur stundað nám í arkitektúr undanfarin þrjú ár og var skólinn orðinn eins og hennar annað heimili. Hún geymdi því litlu hlutina sína á vinnuborðinu og gáfu þeir henni tengingu við náttúruna. Hún segist stundum hafa uppskorið hlátur skólafélaganna fyrir vikið en lét það ekkert á sig fá.

„Mér fannst bara gott að hafa stein í vasanum eða á borðinu sem litla áminningu um náttúruna. Eins var ég komin með þennan kaffibolla í skólann sem ég hálfpartinn stal af mömmu," segir hún og fær sér sopa úr rósamynstruðum kaffibolla. „Hann var eins og lítil tenging við heimilið."

Katla segir foreldra sína hafa kennt sér í æsku dýpra gildi hlutanna, að þó hlutur sé ekki margra króna virði geti hann verið verðmætur á annan hátt.

„Mamma og pabbi eru bæði prestar og voru mikið með okkur systkinunum. Systir mín er ljósmyndari í London og bróðir minn tónlistarmaður í Noregi, svo á ég tvo litla bræður sem búa enn heima. Náttúran er stór partur af okkur öllum og það sést á ljósmyndum systur minnar og heyrist í tónlist bróður míns. Hún hefur bara svo mikil áhrif á þá sem alast upp í henni. Ég held að þeir sem eru tilbúnir til að eyðileggja náttúruna hljóti að misskilja hugtakið verðmæti."

heida@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.