Skoðun

Kópavogur í verulegum fjárhagsvanda

Arnþór Sigurðsson skrifar
Það eru vond tíðindi í loftinu í Kópavogi enda liggur fyrir að skera niður rekstur bæjarfélagsins um 700 milljónir. Þjónusta bæjarfélagsins mun verða sett niður á öllum sviðum en þó er það sameiginleg niðurstaða að verja grunnþjónustuna með öllum tiltækum ráðum. Viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er slíkur að litlu má muna að bæjarfélagið sé sett í gjörgæslu félagsmálaráðuneytisins.

Það er nöturleg aðkoma nýrrar bæjarstjórnar við þessar aðstæður, fyrsta verkefni nýs meirihluta er að skerða þjónustu við börn, aldraða og láta af stuðningi við ýmis góð mál sem skipta samfélagið í Kópavogi miklu máli. Kópavogsbúar hafa því miður veðjað á ranga stjórnmálaflokka í 20 ár til þess að gæta hagsmuna sinna. Til þess að byggja upp samfélag sem stendur af sér erfiða tíma. Kópavogur hefur verið rekinn á glæfralegan hátt og kjörnir fulltrúar hafa farið ógætilega með skattfé íbúanna. Bæjarfélagið hefur verið skuldsett upp fyrir öll mörk og nú er þannig komið að vaxtabyrðin er slík að grunnþjónustan er farin að líða fyrir.

Það er mikilvægt að halda því til haga að fjárfestingar í landakaupum undanfarinna ára hafa verið langt fram úr öllu hófi og er það í raun illskiljanlegt hvernig meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna komst að þeirri niðurstöðu að fjárfesta með þeim hætti sem gert hefur verið. Það hefur gjarnan verið sagt að sjálfstæðismenn geti einungis stjórnað í uppsveiflu, þegar nóg er af fjármagni í umferð eins og var. Sönnun þess liggur á borðinu þessa dagana í Kópavogi, sannleikurinn er nefnilega sá sjálfstæðismenn kunna ekkert með fé að fara enda stendur Kópavogsbær verr að vígi en nokkru sinni fyrr eftir langa valdatíð íhaldsins og framsóknarmanna.

Það er sársaukafullt að taka þátt í þeim niðurskurði sem framundan er og er það sem eitur í beinum félagshyggjufólks að neyðast í þær aðgerðir sem framundan eru til þess að bjarga bæjarfélaginu undan þeirri smán að missa fjárræði yfir til félagsmálaráðuneytisins. Reyndar er það engin nýlunda að það virðist vera verkefni félagshyggjufólks að moka flórinn eftir hægriöflin.

Þó skal hafa það hugfast að það koma dagar eftir þennan dag og undir öruggri stjórn nýja meirihlutans í Kópavogi er hugsað lengra en til morgundagsins. Kópavogur mun rísa upp úr öskustónni og blómstra á ný. Þá er hyggilegt að leggja það vel á minnið til framtíðar að forðast gylliboðin og sjónhverfingarnar sem frjálshyggjan býður gjarnan uppá. Afleiðingarnar eru samfélaginu allt of dýrar.

 




Skoðun

Sjá meira


×