Erlent

Ræðst gegn klerkum í Íran

Óli Tynes skrifar
Mótmælaganga í Íran í desember.
Mótmælaganga í Íran í desember. Mynd/AP

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Íran hefur ráðist harkalega á klerkastjórnina þar á heimasíðu sinni.

Mir Hossein Mousavi sagði í ádeilunni að spilltir harðstjórar stjórni Íran í nafni islams. Mousavi bauð sig fram í forsetakosningunum í júní á síðasta ári.

Stjórnarandstaðan heldur því fram að Mahmoud Ahmadinejad hafi unnið þær með stórkostlegu kosningasvindli.

Yfir áttatíu manns hafa fallið í mótmælaóeirðum sem hófust eftir kosningarnar. Hundruð hafa verið handteknir.

Mousavi segir jafnframt á síðu sinni að hin græna hreyfing hans muni halda áfram að gera þjóðinni grein fyrir misgjörðum klerkaveldisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×