Handbolti

Wilbek: Peningarnir ráða öllu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins.
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins. Nordic Photos / AFP
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins, segir að leikir Íslands og Noregs annars vegar og hins vegar Danmörkur og Króatíu eigi að fara fram á sama tíma.

Þessi fjögur lið eiga öll möguleika á að komast áfram í undanúrslit Evrópumeistaramótsins í handbolta í dag og því mikið undir í leikjunum.

Noregur mætir Íslandi klukkan 15.00 í dag en leikur Króata og Dana ekki fyrr en klukkan 19.15.

Ef Ísland tapar í dag er Króatía þar með öruggt áfram í undanúrslitin og gæti þar með hvílt alla sína bestu leikmenn gegn Dönum í kvöld.

„Þetta er ekki sanngjarnt og einn af ókostum handboltans,“ sagði Wilbek við danska fjölmiðla.

„Það eru peningarnir sem stjórna öllu í handboltanum. Handknattleikssamband Evrópu og allar sjónvarpsstöðvarnar græða mest á því að dreifa leikjunum yfir daginn.“

Framkvæmdarstjóri EHF, Michael Wiederer, segir að þetta hafi ekki talist vandamál hingað til en útilokar ekki að skoða þetta í framtíðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×