Handbolti

Snorri Steinn: Þvílík liðsheild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Mynd/DIENER

Snorri Steinn Guðjónsson sagði að á móti sem þessu þyrfti íslenska landsliðið á öllum sínum leikmönnum að halda.

Ísland komst í dag í undanúrslit á EM í handbolta með sigri á Noregi, 35-34, í lokaumferð milliriðlakeppninnar.

„Þvílík liðsheild sem við erum með,“ sagði hann eftir leikinn. „Það eru alltaf einhverjir nýir leikmenn að stíga upp og spila vel. Vignir var til að mynda frábær í vörninni í dag.“

„En þannig ná lið árangri. Landsliðið telur sextán leikmenn og þarf að nota þá alla í svona móti. Það er erfitt að eiga átta góða leiki í röð og það getur enginn spilað átta sinnum sextíu mínútur.“

Hann segir að ákveðnu markmiði hafi verið náð með sigrinum í dag.

„Það fyrsta var að fara upp úr riðlinum með ákveðinn fjölda stiga. Svo var það líka hluti af langtímamarkmiðinu að komast í undanúrslitin.“

„En við höfum tekið eitt skref í einu hingað til og gerum það áfram. Við pössum okkur á því að fara ekki fram úr okkur.“

Hann sagði að það hefði verið auðvelt að halda einbeitingu út allan leikinn þrátt fyrir mikilvægi leiksins.

„Það var fínt að fá fyrsta leik í dag. Hefðum við tapað þá hefði þetta í raun verið búið því það hefði ekki verið hægt að stóla á Króatana.“

„Það var frábært að við þurftum bara að stóla á okkur sjálfa og þannig viljum við hafa það. Það gerði okkur kleift að mæta gríðarlega einbeittir og vel undirbúnir til leiks.“

Í kvöld mætir Danmörku liði Króatíu í hreinum úrslitaleik um hvort liðið fylgi Íslandi í undanúrslit. Króatíu dugir jafnteflið.

„Ég held að Danir vinni,“ sagði Snorri. „Ég held bara með þeim. Ég spilaði með mörgum þeirra og kann vel við þá. Króatar hafa ekki spilað vel í keppninni og við áttum að vinna þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×