Innlent

Þrýsti á um bótagreiðslur í nálega 40 tölvubréfum

Björgvin Þorsteinsson
Björgvin Þorsteinsson

Björgvin Þorsteinsson, lögmaður Árbótarhjóna, sendi nálega fjörutíu tölvubréf á félagsmálaráðuneytið, flest til skrifstofustjórans Einars Njálssonar, frá 11. janúar á þessu ári og fram í októberlok, þar af helming eftir 1. september, þar sem hann þrýsti á um að málinu yrði lokið með greiðslu bóta. Hér á eftir fer úrval þeirra.

Fréttablaðið hefur undanfarna tvo daga sagt frá því hvernig Árni Páll Árnason, þáverandi félagsmálaráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra ákváðu að greiða eigendum meðferðarheimilisins Árbótar í Þingeyjarsýslu 30 milljónir króna í bætur vegna lokunar heimilisins. Þetta var meðal annars gert gegn vilja forstjóra Barnaverndarstofu og vegna þrýstings frá þingmönnum Norðausturkjördæmis. Fjármálaráðherra segir að sanngirnissjónarmið hafi ráðið för. Barnaverndarstofa hefur þegar greitt 12 milljónir. Ráðgert er að greiða þær 18 milljónir sem eftir standa þegar Alþingi hefur afgreitt fjáraukalög. 

Úrval tölvubréfanna:

19. janúar: Sæll Einar. Mitt fólk er farið að lengja eftir tilboðinu sem átti upphaflega að berast á mánudegi fyrir viku. Fer ekki eitthvað að gerast frá ykkar hendi?

23. mars: Sæll Einar. Er málið algjörlega frosið?

4. maí: Sæll Einar. Er einhver von á að svar berist við síðustu tillögu minni?

10. júní: Sæll Einar. Hann er líklega ekki hraðlæs aðstoðarmaðurinn. Er ekki rétt að lesa þetta fyrir hann?

22. júní: Sæll Einar. Er ekki hægt að greiða alla fjárhæðina strax? Þarf nokkuð að bíða eftir fjáraukalögunum?

8. júlí: Sæll Einar. Eru flestir heiladauðir í þessum ráðuneytum? Nú á að vera búið að borga að hluta til samkvæmt samkomulaginu en það fæst ekki undirritað. Er nokkur möguleiki að þetta klárist í tíð þessarar stjórnar?

22. september: Sæll Einar. Eru ekki ráðherrarnir á fullu að undirrita skjölin?

24. september: Sæll Einar. Nú er þessi vika að renna sitt skeið og ekkert gerist. Skilvirknin sem ríkisstjórnin boðaði hefur snúist upp í andhverfu sína. Nú eru 9 mánuðir liðnir frá því að við hittumst fyrst. Ég reiknaði ekki með að það tæki fullan meðgöngutíma að leysa málið og vona að þú getir fengið þetta lið til að undirrita samkomulag það sem þegar hefur verið gert og að það verði síðan efnt.

27. september: Sæll Einar. Eigum við ekki að setja þrýsting á liðið. Það þarf ef til vill að gefa því stuð til að vekja það til lífsins.

5. október: Sæll Einar. Er nokkuð að frétta af hinum handlama ráðherra velferðarmála? Ef það hindrar hann í undirskriftum að samningurinn var í fjórriti þá dugir mín vegna að hann undirriti bara eitt eintak og það verði síðan ljósritað.

6. október: Sæll. Eru ekki væntanlegar fréttir af undirritunum ráðherranna? Þeim tekst þetta væntanlega ekki á þeim tíma sem þeir eiga eftir að sitja við völd. Ég held að það sé ekki um annað að ræða en að stefna þeim fyrir dómstóla.

6. október: Sæll Einar. Ég sendi þetta nú að kveldi svo þú hafir eitthvað að lesa að morgni. Nú hef ég engin svör fengið við póstum mínum síðan þú tilkynntir mér að Bragi væri búinn að undirrita samninginn en ráðherrarnir væru eftir.

7. október: Sæll Einar. Nú ætla ég að fjölga fyrirspurnum mínum um undirritanir ráðherranna í tvær á dag. Vonast til að verða virtur svars.

8. október: Sæll Einar. Þetta er síðdegispósturinn. Segðu þínum háu herrum að næst sé á dagskrá að hafa samband við umboðsmann Alþingis. Afrek ráðuneytisins sem þú vinnur í eru með eindæmum. Mogginn kemur líka sterklega til greina. Hann hefur gaman að því að fjalla um afrek ráðherranna.

11. október: Sæll Einar. Þetta er morgunpósturinn vegna Árbótarsamningsins. Hefur skilvirkni ráðuneytisins nokkuð aukist þannig að tekist hafi að rita undir samninginn?

11. október: Sæll Einar. Þá er það síðdegispósturinn frá mér. Ég sendi reyndar póst á Steingrím Jóhann fyrr í dag og bað hann um að sparka í þá sem sparka þarf í. Það má vel vera að það sé hann sjálfur en ég hitti hann fyrir tæpum mánuði og þá lofaði hann að málið gengi í gegn. En það er með þetta eins og annað. Verk fylgja víst ekki alltaf loforðum.

28. október: Sæll Einar. Það hefur ekki borist greiðsla frá BVS til Árbótar. Viltu reka á eftir þeim annars grípum við annarra úrræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×