Erlent

Rudd segir sektina vera Bandaríkjanna

Tölvuþrjótar hafa tekið höndum saman um að ráðast á fyrirtæki sem hafa neitað Wikileaks um þjónustu.nordicphotos/AFP
Tölvuþrjótar hafa tekið höndum saman um að ráðast á fyrirtæki sem hafa neitað Wikileaks um þjónustu.nordicphotos/AFP
Kevin Rudd, utanríkisráðherra Ástralíu og fyrrverandi forsætisráðherra, segir Bandaríkjastjórn sjálfa bera ábyrgð á því að samskiptakerfi Bandaríkjahers, sem átti að vera öruggt, reyndist ekki vera nægilega öruggt.

Ábyrgðin sé engan veginn á herðum Julians Assange, stofnanda Wikileaks sem þessa dagana birtir hvert leyniskjalið á fætur öðru frá bandarískum sendiráðum víðs vegar um heim. „Ég tel að spyrja megi um það hvort öryggiskerfi þeirra hafi verið nægilega traust og hvaða aðgang fólk hafði að þessu efni yfir langt tímabil," sagði Rudd.

„Meginábyrgðin, og þar með lagaleg ábyrgð, hvílir á þeim einstaklingum sem bera ábyrgð á þessum upphaflega leka í heimildarleysi." Þessi afstaða Rudds stangast nokkuð á við yfirlýsingar Júlíu Gillard forsætisráðherra, sem tók við af Rudd í júlí eftir að hafa steypt honum af leiðtogastóli Verkamannaflokksins.

Hún sagði Wikileaks-birtingarnar „gróflega ábyrgðarlausar", en tók reyndar fram eins og Rudd að birting skjalanna hefði ekki orðið möguleg ef lög hefðu ekki verið brotin í Bandaríkjunum. Áströlsk stjórnvöld eru enn að skoða hvort Assange hafi með einhverjum hætti gerst brotlegur við áströlsk lög.

Assange var handtekinn í London á þriðjudag og verður í varðhaldi meðan framsalsmál hans er til afgreiðslu í breska dómskerfinu. Sænsk stjórnvöld vilja fá hann framseldan til Svíþjóðar vegna ásakana um kynferðisbrot, en Assange hefur mótmælt framsalsbeiðninni.

Hann hefur ekki verið formlega ákærður, en kærur hafa verið lagðar fram og saksóknari vill fá hann til yfirheyrslu áður en ákvörðun verður tekin um ákæru.

Sænsk lög um kynferðisbrot eru strangari en í flestum öðrum löndum, þannig að Assange gæti reynst erfitt að komast undan þeim. Á fréttasíðum breska útvarpsins BBC segir að lögfræðingar gantist stundum með að menn þurfi að fá skriflegt leyfi áður en stofnað er til kynmaka.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×