Erlent

Tók leigubíl frá flugslysi

Óli Tynes skrifar
Flak Aviastar þotunnar.
Flak Aviastar þotunnar.

Átta manna áhöfn var um borð í Tupolev þotu rússneska flugfélagsins Aviastar-TU sem brotlenti einn kílómetra frá flugvelli í Moskvu í gær.

Vélin var að koma frá Egyptalandi en þangað hafði hún flutt 130 farþega daginn áður. Vélin lenti í skóglendi og drógu tré mjög úr hraða hennar áður en hún lenti á jörðinni. Enginn eldur kviknaði.

Enginn flugliðanna fórst en einhverjir þeirra slösuðust eitthvað. Ein flugfreyjan var ekki ver á sig komin en svo að hún óð snjó frá flugvélarflakinu og upp á veg, þar sem hún tók leigubíl í bæinn.

Vélin var í aðflugi í mikilli þoku þegar slysið varð. Flugmennirnir höfðu ekki gefið neitt í skyn um að eitthvað væri í ólagi.

Samband rofnaði við vélina þegar hún var um einn kílómetra frá brautarendanum og voru þá björgunarsveitir sendar á vettvang.

Aviastar flugfélaginu hefur verið bannað að flytja farþega meðan rannsókn á slysinu fer fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×