Lífið

Átakanleg rannsóknarvinna í Kaupmannahöfn

Danski metsöluhöfundurinn Sara Blædel er stödd hér á landi til að fylgja eftir útgáfu á bók sinni, Aldrei framar frjáls, í íslenskri þýðingu. Bókin er önnur saga Blædel sem kemur út hér á landi en bókin Kallaðu mig prinsessu kom út í íslenskri þýðingu í fyrra. Bækurnar eru báða glæpasögur með blaðakonuna Louise Rick í aðalhlutverki.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sara kemur til Íslands á þessum tíma árs og var agndofa yfir íslensku sumarsólinni sem ekki sest, þegar Fréttablaðið náði af henni tali. „Það er frábært að vera hérna og ég sat í gærkveldi um miðnætti og átti ekki til orð yfir hversu bjart var. Þetta er alveg frábært,“ segir Sara. Hún var valin rithöfundur ársins af dönskum lesendum í fyrra. Hún hefur einnig verið vinsæl hér á landi og segist fá margar kveðjur frá íslenskum lesendum.

Aldrei framar frjáls fjallar um morð á vændiskonu í Kaupmannahöfn sem blaðakonan Louise Rick ákveður að rannsaka nánar í samstarfi við lögregluna. Þar kynnist hún harðsvíruðum glæpamönnum og kemst að því að mansal er staðreynd á Norðurlöndunum.

Sara Bældel starfaði sem blaðamaður áður en hún settist í rithöfundarstólinn en segir að rannsóknarvinnan bak við þessa bók hafi verið það erfiðasta sem hún hefur gert. Hún tók viðtöl við vændiskonur og fékk innsýn í þeirra heim. „Ég fór og fylgdist með vændiskonum að störfum í Istedgade á Vesterbro í Kaupmannahöfn og gat tekið við þær viðtöl í athvarfi sem er fyrir þær á Vesterbro,“ segir Sara og bætir við að sögur kvennanna hafa hitt sig beint í hjartastað og mjög erfitt hafi verið að hlusta að sumar sögurnar.

„Stundum þurfa þær að sofa hjá allt að 22 mönnum á dag og svo fengu þær sama og engan pening fyrir, en þeir fara í vasann á mönnunum sem sjá um þær. Á þessi tímabili gekk ég um með hnút í maganum yfir ömurlegum örlögum þessara kvenna.“

Sara segir að bókin fjalli í aðalatriðum um það hvernig manneskjur geta misst algera stjórn á sínu eigin lífi og hvernig glæpaklíkur einsetja sér að afvegaleiða konur á þennan hátt.

„Ég er ekki að segja að það sé mikið um mansal og vændi í Danmörku en það er til og við megum ekki loka augunum fyrir því,“ segir Sara að lokum.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.